Lyfjaauglýsingar í fjölmiðlum

134. fundur
Mánudaginn 18. apríl 1994, kl. 15:48:08 (6432)

[15:48]
     Fyrirspyrjandi (Ingibjörg Pálmadóttir) :
    Virðulegi forseti. Að undanförnu hefur náðst umtalsverð kostnaðarlækkun hjá ríkinu varðandi lyfjaútgjöld. Kemur helst tvennt til: Sjúklingar taka verulegan þátt í kostnaði við kaup á lyfjum, borga sem sagt stærri hluta af lyfjakostnaði, og í öðru lagi hefur því ítrekað verið beint um nokkurt skeið til lækna að ávísa ódýrasta lyfi sé verkun lyfsins talin sú sama, þannig að læknirinn merkir S á lyfseðilinn ef hann telur óhætt að nota samheitalyf. Með því hefur náðst umtalsverður sparnaður og ber að fagna því.
    Í Læknablaðinu, ekki alls fyrir löngu, var auglýsing frá umboðsaðilum erlendra lyfja þar sem læknar voru minntir á að setja R á lyfseðil sem þýðir að sjúklingurinn fær eingöngu afgreitt tiltekið lyf. Þessi auglýsing í Læknablaðinu hefur farið illa í heilbrigðisyfirvöld og kannski ekki að ástæðulausu þar sem umtalsverður árangur hefur náðst í sparnaði vegna S-merktra lyfja eins og ég sagði að framan.
    Hefði nú einhverjum þótt eðlilegt að heilbrigðisyfirvöld auglýstu á móti í Læknablaðinu. Í staðinn er hafin ótrúleg herferð í fjölmiðlum, sérstaklega í útvarpi. Það má tala um síbylju í því sambandi. Þessar auglýsingar valda furðu hjá mörgum sjúklingum, þeir spyrja sig auðvitað hvort læknar séu algjörlega á valdi lyfjaframleiðenda. Þurfa sjúklingar að vera vakandi yfir því hvaða lyfi læknar ávísa? Er ætlast til að sjúklingar meti verkun lyfja áður en þeim er ávísað?
    Með auglýsingunni eru læknar gerðir tortryggilegir og nánast sagðir hirðulausir um að velja rétt og jafnframt ódýrasta lyfið. Með auglýsingunni eins og hún er sett fram er látið að því liggja að sjúklingarnir eigi valkost hvaða lyfi er ávísað, málið er einfaldað með auglýsingu frá heilbr.- og trmrn. og Tryggingastofnun ríkisins eins og um sölu á misdýru en jafngóðu haframjöli væri að ræða. Því spyr ég hæstv. heilbr.- og trmrh. eftirfarandi fimm spurninga á þskj. 942:
  ,,1. Hverju á að ná fram með þeim auglýsingum sem nú birtast í blöðum og ljósvakamiðlum frá heilbrigðisráðuneytinu og Tryggingastofnun ríkisins?
    2. Er ætlast til að sjúklingar hafi áhrif á lækna varðandi hvaða lyfjum er ávísað?
    3. Hvað á auglýsingaherferðin að standa lengi yfir?
    4. Hvað er áætlað að þessi auglýsingaherferð muni kosta?
    5. Í hvaða fjölmiðlum er auglýst?``