Lyfjaauglýsingar í fjölmiðlum

134. fundur
Mánudaginn 18. apríl 1994, kl. 15:56:34 (6436)


[15:56]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Ég hef ákveðinn ótta af því að hv. fyrirspyrjandi vaði í villu og svima í þessum efnum. Þetta kynningarátak eins og ég gat um í svari mínu, byggist á því að allir þeir aðilar sem nærri koma og áhrif hafa þarna á, læknar, lyfjafræðingar og sjúklingar, hafi allar helstu upplýsingar um þá möguleika sem tilgreind reglugerð gefur kost á. Okkur er kunnugt um það eftir stikkprufum að sjúklingar, eðlilega, spyrja lækna að því þegar lyfseðlar eru gefnir út hvort um sé að ræða samheitalyf í þessum lyfjaflokki. Því miður er það nú svo þótt að læknar hafi tekið vel við sér varðandi þessa reglugerð þá eru það ekki nema 48% lyfseðla sem eru merktir með þeim hætti sem reglugerðin segir til um. Þannig að ákveðin vandamál hafa skapast í þeim tilfellum sem engin merking er. Þetta hefur farið sívaxandi og er í rétta átt og fer batnandi og við væntum þess að í kjölfar þessa kynningarátaks þá náum við enn frekari árangri en áður var.
    Með öðrum orðum, ég hygg að þessir fjármunir sem ég nefndi til sögunnar og hefur verið varið til þessa kynningarátaks komi þvert á móti til með að skila sér margfalt í lækkun útgjalda hjá Tryggingastofnun, í lækkun útgjalda hjá þeim einstaklingum sem kaupa þurfa lyfin því ekki skulum við gleyma því, eins og fram hefur komið í umræðu einatt á hinu háa Alþingi að 30% lyfjaútgjalda eru úr buddu notenda sjálfra. 70% er hin samfélagslega þjónusta sem skattgreiðendur taka á sig sameiginlega.
    Varðandi athugasemdir hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur um breytta reglugerð 1. mars sl. um skammtastærð þá vil ég taka það skýrt fram að í þeirri reglugerð var kveðið á um það að þar sem um var að ræða langvarandi sjúklinga, króníska sjúklinga, sem þyrftu á þessum meðulum að halda til lengri tíma, þá var kveðið á um það að með nákvæmri skilgreiningu læknis þá mundi Tryggingastofnun ríkisins gefa út lyfjakort sem heimiluðu stærri skammta.