Kaup á björgunarþyrlu

136. fundur
Þriðjudaginn 19. apríl 1994, kl. 15:03:53 (6450)


[15:03]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Við Íslendingar stundum sjávarútveg við óblíð skilyrði. Öryggismál sjómanna hafa þess vegna lengi verið málefni sem þjóðin lætur sig miklu skipta. Þeir sem best þekkja til hafa lengi haldið því fram að ekkert í öryggismálum sjómanna væri meira aðkallandi en að keypt verði ný og öflug björgunarþyrla.
    Þjóðin hefur verið samstiga í því að taka undir þá kröfu að málinu verði ráðið til lykta sem allra fyrst. Það hefur þess vegna verið sársaukafullt fyrir fólkið í landinu að fylgjast með endalausum vandræðagangi, klúðri og sérkennilegri óheppni hæstv. ríkisstjórnar við meðferð málsins.
    Það er rétt að minna á það að á lokadaginn þann 11. maí 1988 samþykkti Alþingi þáltill. um björgunaryrlu. ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni`` stendur þar ,,að láta gera athugun á kostnaði við kaup og rekstur á björgunarþyrlu af bestu fáanlegri gerð fyrir Landhelgisgæsluna.`` Eftir margar skýrslur og miklar vangaveltur þar sem ekkert gekk var Alþingi loks nóg boðið og þann 12. mars 1991 samþykkti Alþingi eftirfarandi tillögu:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að sjá til þess að á árinu 1991 verði gerður samningur um kaup á fullkominni björgunarþyrlu fyrir Landhelgisgæsluna.``
    Þarna voru á ferðinni tímasett fyrirmæli og margir trúðu því að nú hlyti að koma að efndum í þessu máli, en það var nú öðru nær. Nú tókst þeim sem hafa veru ameríska hersins að hjartans máli, að blanda hernum og starfsemi hans inn í umræðuna. Síðan hvorki gekk né rak þar til nú fyrir fáeinum dögum að fréttir bárust um það að nú væri ákvörðunar von. Dómsmrh. hafði gert upp sinn hug. Það var búið

að skoða alla möguleika á þessum markaði og öll tilboð sem völ var á og var nú ekki fært að bíða með ákvörðun lengur. Þjóðin mátti búast við því að loksins sæist fyrir endann á þessu máli með farsælum hætti.
    En þá á ögurstundinni þegar hæstv. dómsmrh. hafði loks mannað sig upp í að gera tillögu í málinu birtist hæstv. starfandi utanrrh. með brunaútsölutilboð frá Ameríku. Hann sagði, hæstv. ráðherra, að það væri hægt að fá þrjár þyrlur með varahlutalager fyrir verð einnar og það fylgdi ókeypis leikfimi eða þjálfun með. Við erum ekki lengur að tala um að kaupa einhverja eina þyrlu heldur koma á fót björgunarsveit sem tæki yfir allt björgunarflug frá Íslandi. Fyrir þessa þjónustu mundu Íslendingar fá greidd verktakalaun sem gætu staðið undir rekstrarkostnaðinum og jafnvel fjármagnað að stórum hlutað kaup á nokkrum þyrlum. Við erum því að tala um tekjumöguleika fyrir þjóðina til framtíðar og ný störf. Ég tel það enga goðgá að kanna tilboð Bandaríkjamanna vel og gefa okkur til þess nokkra daga, segir Sighvatur Björgvinsson, starfandi utanrrh. í DV þann 14. apríl sl.
    Samkvæmt þessu tilboði var hægt að fá 5 eða 6 þyrlur fyrir sama verð og ein átti að kosta áður og það komu skilaboð frá Kína um að fram hjá svona tilboði gætu menn ekki gengið án þess að rannsaka það vandlega. Hæstv. utanrrh. hafði þrátt fyrir mikinn tímamun, erfið ferðalög og breytt matarræði gefið sér tíma til að skoða þetta stórkostlega tilboð frá Ameríku. En varla höfðu menn meðtekið hin miklu tíðindi þegar boð barst frá Ameríku um það þetta væri allt saman mistök, það væri kannski hægt að fá eina fyrir þetta verð. Mistökin hefðu átt sér stað við sendingu símbréfs og tölurnar stæðust ekki. En hvernig brást þá hæstv. ríkisstjórn við þeim tíðindum að þetta hafi allt saman verið della? Jú, með því að fresta málinu enn einu sinni þrátt fyrir að það tilboð sem hæstv. dómsmrh. lagði til að yrði tekið væri að renna út. Það virðist ljóst að þeir aðstandendur hæstv. ríkisstjórnar sem vilja með öllum ráðum tengja björgunarmál okkar Íslendinga við veru herliðsins í landinu ráði enn ferðinni. Hvað sem það kostar skal málið tafið til að þjóna lund þeirra stuðningsmanna hæstv. ríkisstjórnar sem hafa það að sinni æðstu hugsjón að hér verði amerískur her um alla framtíð. Ég vil að lokum spyrja hæstv. dómsmrh. eftirfarandi spurninga:
    Er búið að tryggja að tilboð sem hæstv. dómsmrh. vildi að yrði tekið standi út þennan nýja frest? Er búið að ákveða að viðræður fari fram við amerísk stjórnvöld um málið? Ætlar hæstv. dómsmrh. að fallast á enn eina framlengingu á fresti í þessu máli til viðbótar við þann sem hæstv. ríkisstjórn hefur núna tekið ákvörðun um eftir að þessar viðræður hafa hafist?