Kaup á björgunarþyrlu

136. fundur
Þriðjudaginn 19. apríl 1994, kl. 15:31:01 (6459)


[15:31]
     Árni Johnsen :
    Virðulegi forseti. Árið 1991 lét hæstv. dómsmrh. gera úttekt á starfssviði Landhelgisgæslunnar og nefnd undir forustu hv. þm. Björns Bjarnasonar skilaði niðurstöðu. Upp frá því var hægt að taka með rökum afstöðu til þyrlukaupa. Sérstök þyrlunefnd skilaði áliti á miðju ári 1992. Síðan hefur málið verið í vinnslu að hluta og í þæfingi að öðru leyti. Að mínu mati hafa afskipti hæstv. utanrrh. af málinu á undanförnum missirum verið óeðlileg. Málið er á verksviði dómsmrh. og þar hefði það átt að vera í fastari skorðum en hæstv. utanrrh. hefur gefið færi á. Auðvitað eiga Bandaríkjamenn fullkomnar þyrlur sem gætu dugað við íslenskar aðstæður. Þær hafa bara ekki verið inni í myndinni. Black Hawk þyrlurnar eru of dýrar til að mynda og óhagstæðar í rekstri og Pave Hawk þyrlurnar eru of litlar miðað við það sem aðstæður hér á landi kalla á.
    Tilboðin sem hæstv. utanrrh. hefur komið til skila og bandarísk stjórnvöld hafa beðist afsökunar á bera vott um að þau koma fram einhvers staðar á fyrstu stigum vegna þess að það er ekki frambærilegt af ríkisstjórn Bandaríkjanna eða stjórnvöldum að biðjast afsökunar á tilboði til íslenskra stjórnvalda. Það er ekki marktækt að slíkt skuli koma fram. Mistökin, þó þau væru Bandaríkjastjórn í óhag, hefðu ekki átt að koma til. Ef það hefði verið alvöruhugsun á bak við hefðu menn staðið við tilboðið hversu vitlaust sem það var. Það sýnir að þetta er spjallstigi og ekki boðlegt. Tilboðin sem koma inn í dæmið á vegum hæstv. utanrrh. eru á spjallstigi. Og tilboðið þar sem beðist var afsökunar hlýtur að hafa byggst á því að það hefur verið boðið upp á eitthvert skran. Hæstv. utanrrh. á ekki að láta stimpla sig sem skransala fyrir Bandaríkjamenn.
    Það er ekki hægt að bíða endalaust eftir geðþóttaákvörðunum bandarískra stjórnvalda. Það er stæða til að ganga strax til kaupa á þeirri þyrlu sem þyrlunefndin hefur mælt með, virðulegur forseti. Hún heitir Super Puma og er ekki eftir neinu að bíða í sjálfu sér.