Áburðarverksmiðja ríkisins

137. fundur
Þriðjudaginn 19. apríl 1994, kl. 17:41:14 (6485)


[17:41]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég kem upp til að taka undir álit minni hluta landbn. þar sem mér finnst vera tekið mjög skynsamlega á því hvernig staða Áburðarverksmiðjunnar er og verður hugsanlega í framtíðinni ef þessi fyrirhugaða breyting verður gerð. Það er verið að vara við því að þessi breyting á rekstrarformi verksmiðjunnar leysi ekki þann vanda sem verksmiðjan stendur frammi fyrir. Ég get ekki sagt að þó að með frv. sé verið að breyta Áburðarverksmiðjunni í hf. og hæstv. landbrh. sé einn um það að tilnefna stjórn muni það breyta neitt rekstraraðstöðu verksmiðjunnar þannig að hún eigi eitthvað betri framtíð fyrir sér. Ég vil því taka undir það að ég tel eðlilegast að vísa þessu máli til ríkisstjórnarinnar aftur. Eins og hér hefur komið fram, átti að afgreiða þetta mál fyrir þinglok í fyrravor. Það tókst ekki vegna skyndilegrar afstöðu hæstv. forsrh. sem hlýtur þá m.a. að hafa verið tekin af því að honum hefur ekki verið neitt sérlega mikið í mun að afgreiða þetta mál. Ég held að best væri að það væri ekki afgreitt heldur fyrir þessi

þinglok.
    Mér finnst svolítið sérkennilegt það sem stendur í nál. meiri hluta landbn., með leyfi forseta:
    ,,Við fyrri umræður á Alþingi og umfjöllun þingnefnda um frv. til laga um stofnun hlutafélaga um ríkisfyrirtæki hafa orðið miklar umræður og skiptar skoðanir meðal þingmanna um hvernig gætt skuli réttinda ríkisstarfsmanna við slíkar breytingar. Nefndin hefur kynnt sér þær lögfræðilegu greinargerðir sem aðrar nefndir öfluðu sér við umfjöllun þeirra um hliðstæð mál og leggur áherslu á að allt verði gert til þess að ná samkomulagi við samtök ríkisstarfsmanna um málið. Er það mun betri kostur en ef leysa þarf málið fyrir dómstólum eins og annars stefnir í.``
    Vissulega get ég tekið undir að það sé miklu betri kostur að leysa málið áður en það komi fyrir dómstóla en við höfum bara séð að ekki hefur verið skeytt um að ljúka umfjöllun um þessi mál og afgreiða svona mál úr þinginu. Við í stjórnarandstöðunni höfum ítrekað bent á það hér að hliðstæð mál séu núna í dómskerfinu og það eigi að bíða með ákvarðanir og að samþykkja fleira í þessum dúr sem býður upp á sömu málsmeðferð. En það er eins og stjórnarliðar hvorki heyri eða sjái þegar um það er að ræða að einkavæða ríkisfyrirtæki og alltaf skal haldið inni að hin sérstöku ákvæði um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna skv. 14. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, eigi ekki við um starfsmenn þeirra fyrirtækja sem í hlut eiga þegar verið er að einkavæða ríkisfyrirtæki.
    Mér finnst því nokkuð sérkennilegt að þetta skuli koma fram í nál. meiri hluta landbn. sem bendir til þess að hún hefur vissar efasemdir um 6. gr. frv. þar sem þetta kemur fram og vill benda á það að allt verði gert til að ná samkomulagi við samtök ríkisstarfsmanna en jafnframt ætlar nefndin að standa að því að frv. verði samþykkt sem býður upp á það að út af þessu verði málaferli.
    Hér eiga yfir 100 starfsmenn í hlut í þessu fyrirtæki og það gæti orðið nokkuð dýrt fyrir ríkið þó meiningin með frv. sé að sjálfsögðu að græða eitthvað á því. Það gæti orði nokkuð dýrt fyrir ríkið að hér bætist við eitt fyrirtækið í viðbót þar sem starfsmenn færu í málaferli út af þessum ákvæðum.
    Í 1. gr. frv. segir, með leyfi forseta:
    ,,Nefnd, sem ráðherra skipar, skal meta eignir og skuldir verksmiðjunnar. Matið skal leggja til viðmiðunar um andvirði hlutafjár og upphaflega eiginfjárstöðu hins nýja félags.``
    Hvernig skyldi þessi nefnd eiga að vera skipuð? Hverjir skyldu fá það hlutverk að meta eignir og skuldir verksmiðjunnar? Við höfum horft upp á það að ekki hefur verið farið neitt sérstaklega vel með það þegar eignir og skuldir og hlutafé er metið í upphafi þegar standa á að sölu fyrrum ríkisfyrirtækja. Við höfum undanfarnar vikur og mánuði verið að ræða hvernig staðið hefur verið að sölu SR-mjöls. Þar var ekki Ríkisendurskoðun t.d. fengin til þess að meta stöðu þess fyrirtækis áður en það var selt. Það var einkavætt í byrjun ágúst og einni eða tveimur vikum seinna var fyrirtækið komið á söluskrá. Enginn í ríkisgeiranum, þ.e. ekki fjárln., ekki Alþingi, ekki einu sinni fjmrh. vissi hvernig átti að standa að því eða hvernig þær eignir yrðu metnar.
    Hér stendur að það er nefnd sem ráðherra skipar sem á að meta eignir og skuldir verksmiðjunnar. Mér er því spurn: Hvernig verður sú nefnd skipuð? Það væri ágætt ef hér væri einhver, annaðhvort framsögumaður eða ráðherra, sem gæti svarað því hvernig þessi nefnd sem á að selja fyrirtækið verður skipuð.
    Í 3. gr. segir að ríkissjóður sé eigandi allra hlutabréfa í félaginu við stofnun þess og landbrh. á að fara með eignarhlut ríkissjóðs. Þetta á að vera til þess, samkvæmt því sem segir í athugasemdum með frv., að hagræða í rekstri og gera verksmiðjuna hæfari til að aðlaga sig markaðinum og takast á við breytingar og geta brugðist við fyrr en ella ef þetta væri ríkisfyrirtæki. Ég get ekki séð annað en hér sé verið að auka miðstýringu og þrengja hag þessa fyrirtækis þar sem nú á landbrh. einn að fara með eignarhlutinn. Hann einn á að mæta á hluthafafund og hann á að skipa stjórnina. Hún er ekki kosin á Alþingi og þar mun þá ekki gæta annarra sjónarmiða en sjónarmiða hæstv. landbrh.
    Það segir t.d. í athugasemdum með frv., sem mér finnst stangast nokkuð á við ýmsar fullyrðingar, með leyfi forseta: ,,Fyrirsjáanlegur er frekari samdráttur í notkun tilbúins áburðar`` --- sem hlýtur þá að draga úr framleiðslu verksmiðjunnar. Og það segir einnig að vegna nýs GATT-samnings og reglna muni draga úr notkun tilbúins áburðar. Og það verði að telja líkur á að þau atriði sem drepið er á hér að framan kunni að leiða til umtalsverðs samdráttar í sölu á tilbúnum áburði hér á landi. Það mun sem sagt draga úr sölu og rekstrarafkoma fyrirtækisins verða erfiðari. Svo er sagt síðar að sem stofnun í eigu ríkisins hljóti verksmiðjan að teljast vanbúin til þess verkefnis að skapa skilyrði til að takast á við þessa óvissuþætti. Þess vegna sé lagt til að rekstrarformi verksmiðjunnar sé breytt. Það eigi að tryggja hagsmuni ríkisins sem eiganda verksmiðjunnar. Mér finnst þetta stangast á, fullyrðingar að samdráttur sé alveg fyrirsjáanlegur, það sé fyrirsjáanlegt að rekstur fyrirtækisins verði erfiðari en síðan á allt í einu að tryggja hagsmuni ríkisins sem eiganda verksmiðjunnar en ríkissjóði er jafnframt ætlað að tryggja sína hagsmuni m.a. með því að selja fyrirtækið. Samt er um leið sagt að fyrirtækið eigi þannig framtíð fyrir sér að það muni ekki verða mikil söluvara.
    Þess vegna finnst mér eðlilegra að spyrja: Hverjum á að gefa þetta fyrirtæki? Það hlýtur að vera einhver sem á að taka við því svo ríkið losni við það vegna þess að framtíðin sé óviss, framtíðin verði erfið og reksturinn muni ekki bera sig og ríkið ætli að tryggja sína hagsmuni en það mun ekki geta selt það vegna þess að það lítur ekki út fyrir að við óbreyttar aðstæður muni reksturinn geta gengið. Það verður eitthvað annað að koma til. Þess vegna getur ekki verið að neinir sérstakir fjárfestar hafi hug á að fjárfesta í slíku fyrirtæki og þess vegna hlýtur í raun og veru að eiga að gefa þetta fyrirtæki. Þess vegna væri líka mjög forvitnilegt að vita hvernig sú nefnd á að vera skipuð sem á að takast á við það, eins og hér segir, að meta eignir og skuldir verksmiðjunnar til sölunnar.
    Ég ætla ekki að lengja mitt mál frekar um þetta. Ég hef mjög margt við þessi áform að athuga. Ég tel að þau standist engan veginn og ekki sé verið að hugsa um hag verksmiðjunnar, ríkisins, þeirra sem vinna við þessi störf né heldur hag landbúnaðarins í heild og ég er því alfarið á móti öllum hugmyndum um stofnun hlutafélags um Áburðarverksmiðju ríkisins.