Fullgilding ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um bókun 47

138. fundur
Miðvikudaginn 20. apríl 1994, kl. 16:19:23 (6513)


[16:19]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Aðeins örfá atriði. Í fyrsta lagi þakka ég fyrir það að fram kom hjá hv. þm. að meðlimir utanrmn. fengu, að vísu ekki í íslenskri þýðingu, gerðirnar þegar í nóvember sl. og greinargerð um þær. Í annan stað vil ég árétta að gerðir um bílasmíði á Íslandi útiloka ekki innflutning frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins og að lækningartæki þeirra gerðir sem til þess taka eru öryggisatriði fyrir sjúklinga og heilbrigðisstéttir. Þær þjóðir sem hafa strangastar kröfur varðandi þennan búnað eru einmitt Japanir og Bandaríkjamenn sem þykja fremri Evrópuþjóðum og ég er fullviss um að þetta útiloki ekki innflutning á slíkum tækjum.
    Að því er varðar hinn fjárhagslega kostnað okkar þá staðfesti hv. þm. að það var rétt sem ég sagði. Kostnaðurinn er rúmar 20 millj. En af fyrri ræðu hans mátti ætla að kostnaðurinn sem við greiddum væri 1 milljarður og það er gott að það mál er leiðrétt.
    Að því er varðar sendiráð í Beijing er því til að svara að á sínum tíma var sú tillaga flutt af Norðmönnum á fundi utanríkisráðherra Norðurlanda að Norðurlöndin efndu til sameiginlegrar sendiráðaþjónustu. Einkum og sér í lagi átti það að byrja að því er varðaði hin nýfrjálsu ríki Mið- og Austur-Evrópu. Sú tillaga var sett í embættismannanefnd sem enn hefur ekki skilað áliti. En þetta yrði fyrsta framkvæmdin á því samstarfi sem ég tel til fyrirmyndar. Við höfum óskað eftir því, Svíar hafa fallist á það og það er íslenskt sendiráð. Sá sendiráðsstarfsmaður sem þar mun starfa verður væntanlega íslenskur sendiherra. Hann mun heita ,,minister`` þar meðan hann starfar innan vébanda sænska sendiráðsins, en þetta er ekki frambúðarlausn. Þetta er til reynslu meðan við erum að koma undir okkur fótunum og fyrsta skrefið í þá átt að stofna sendiráð sem hefði hins vegar viðskiptalega fyrirgreiðslu og viðskiptalega þjónustu sem meginmál.