Fullgilding ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um bókun 47

138. fundur
Miðvikudaginn 20. apríl 1994, kl. 16:25:24 (6516)


[16:25]
     Páll Pétursson (andsvar) :
    Frú forseti. Stöðlun á reglum og samræmdar reglur. Það liggur náttúrlega alveg í því sem hæstv. utanrrh. sagði að með því að samræma reglurnar og staðla, ef þeir vilja gera svo vel og samræma sig og sníða sig eftir Evrópustöðlunum, þá eiga þeir greiðan aðgang. Það hafa Japanir t.d. gert. Japanskir bílaframleiðendur höfðu vaðið fyrir neðan sig og fóru að smíða eftir evrópskum stöðlum. Bandaríkjamenn töldu sig ekki þurfa að gera það.
    Nú þarf enginn að segja mér það að bandarískir bílar séu óöruggari til að ferðast í eða lakari en evrópskir bílar eða japanskir. Þetta er auðvitað ekkert annað heldur en viðskiptahindranir. Það er ekki verið að hugsa um öryggi farþega eða ökumanna eða vegfarenda. Það er verið að hugsa um að að laga til fyrir framleiðendur evrópskra bíla.