Framtíðarskipan Hæstaréttar

139. fundur
Mánudaginn 25. apríl 1994, kl. 15:23:31 (6541)


[15:23]
     Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Eins og kemur fram í þessum fyrirspurnum þá hef ég mikinn áhuga á framtíð Hæstaréttar. Það má að vissu leyti segja að hæstv. dómsmrh. hafi svarað þeirri fsp. sem hér er á ferð en

ég vona að hann fari eitthvað ítarlegar út í málið. Ég beini þeirri spurningu til hæstv. dómsmrh. sem er að finna á þskj. 797 og hljóðar þannig, með leyfi forseta:
    ,,Hver er stefna ríkisstjórnarinnar varðandi framtíðarskipan Hæstaréttar?``
    Nú er það grundvallarspurning hvort það sé í verkahring ríkisstjórnar á hverjum tíma að hafa áhrif á eða taka ákvarðanir um skipan dómstóla landsins en að sjálfsögðu getur meiri hluti Alþingis og ríkisstjórnarflokkar, hverjir sem þeir eru, haft skoðun á því hvernig haga beri skipan dómstóla og hvernig að þeim skuli búið.
    Í réttar- og lýðræðisríki eiga afskipti framkvæmdarvaldsins af dómskerfinu að vera sem minnst en hér á landi eru þau meiri en víða annars staðar og gildir sú regla að það kemur í hlut dómsmrh. að skipa í stöður dómara og beita sér fyrir breytingum á dómskerfinu, samanber nýsett lög um Hæstarétt og þær miklu breytingar sem hér hafa orðið á dómskerfinu á lægri stigum á undanförnum árum.
    Í ríki eins og Bandaríkjunum eru dómarar á lægri dómstigum kosnir af almenningi í beinum kosningum með öllu því brambolti sem því fylgir en forseti Bandaríkjanna skipar dómara hæstaréttar að undangenginni rannsókn þingnefndar.
    Dómarar í Mannréttindadómstól Evrópuráðsins eru kosnir af þingmönnum sem sæti eiga á þingi Evrópuráðsins eftir að hæfnismat hefur farið fram. Val dómara er því með ýmsum hætti og er engan veginn víst að sú skipan sem hér tíðkast sé hin endanlega eða besta.
    Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, Velferð á varanlegum grunni, er einungis minnst á húsnæðisvanda Hæstaréttar en ekkert komið inn á skipulag hans. Í ljósi áforma um fyrirhugað Hæstaréttarhús svo og þeirra umræðna sem um það hafa spunnist vaknar sú spurning hvaða hlutverk núverandi ríkisstjórn ætlar Hæstarétti.
    Reyndar má lesa ákveðna stefnu út úr þeim gögnum sem lögð hafa verið fram vegna fyrirhugaðrar byggingar en engu að síður finnst mér ástæða til að spyrja spurninga af þessu tilefni. Er það t.d. skoðun núverandi ríkisstjórnar að það eigi á ný að koma á fót þriðja dómstiginu og létta þannig á Hæstarétti eins og ég veit að núverandi forseti Hæstaréttar hefur reifað? Eða á að bregðast við mikilli fjölgun mála með frekari fjölgun dómara, eins og nú er verið að gera, og hve langt dugar það? Eru e.t.v. einhverjar aðrar hugmyndir á kreiki í stjórnkerfinu um það hvernig megi gera dómskerfið enn virkara og betra en þegar hefur verið gert?
    Ég endurtek spurningu mína: ,,Hver er stefna ríkisstjórnarinnar varðandi framtíðarskipan Hæstaréttar?``