Afgreiðsla mála í iðnaðarnefnd, svar landbrh. við fyrirspurn

142. fundur
Miðvikudaginn 27. apríl 1994, kl. 13:39:43 (6646)


[13:39]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég vil vekja athygli hæstv. forseta og jafnframt þingsins á því að fyrir iðnn.

þingsins liggja tvö mál sem ég ásamt öðrum í þingflokki Alþb. er flm. að, hið fyrra um jarðhitaréttindi og annað um orku fallvatna. Þessi frumvörp hafa verið flutt á mörgum þingum, komu fyrst fram 1982--1983 á þinginu og hafa verið rædd hér. Það hefur gerst á undanförnum mörgum árum að ráðherrar iðnaðarmála hafa lýst áhuga sínum á lögfestingu í sambandi við þetta efni þó að þeir kunni að hafa haft fyrirvara varðandi þau frumvörp sem ég hef fram borið ásamt fleirum. Ég minni á að 19. nóv. 1991 sagði þáv. hæstv. iðnrh. Jón Sigurðsson um þetta efni: ,,Frumvarp um eignarhald á orkulindum verði lagt fram mjög fljótlega eftir jólahlé þingsins.``
    Tæplega ári seinna, þann 8. okt. 1992, sagði sami ráðherra: ,,Ég get skýrt frá því að frumvörp eru á lokastigi. Það skal vel vanda sem lengi á að standa. Þarna verður byggt á sömu grundvallarreglu og í lögunum um eignarrétt íslenskra ríkisins að auðlindum hafsbotnsins.`` En það eru lög sem ég átti hlut að að voru sett hér á þingi.
    29. apríl í fyrra, virðulegur forseti, sagði formaður Alþfl., hæstv. utanrrh., um þetta mál: ,,Ég geri fastlega ráð fyrir því að frumvörpin verði áfram til umfjöllunar í ríkisstjórn og þau verði lögð fram í upphafi þings næsta haust.`` Og litlu seinna sagði hæstv. þáv. iðnrh., Jón Sigurðsson: ,,Eins og fram kom í svari hæstv. utanrrh. munu frumvörpin tvö sem ég hef lýst og verið hafa til athugunar nú um nokkurt skeið koma fram í haust. (Forseti hringir.) Það skal vel vanda sem lengi á að standa.`` Sömu orð og tveimur árum áður.
    Ég hef, virðulegur forseti, fyrir framan mig sáttmála að ég hygg núv. ríkisstjórnar, Velferð á varanlegum grunni, og vísa þar á bls. 34 um þetta efni. Og ég óska eftir því að það komi hér skýringar fram vegna þess að þetta varðar spurninguna um afgreiðslu þessara frumvarpa í iðnn. þingsins.