Framleiðsla og sala á búvörum

142. fundur
Miðvikudaginn 27. apríl 1994, kl. 14:15:14 (6657)


[14:15]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Nú hafa tíðindi orðið á nýjan leik í hv. landbn. Samhljóða skrifar hún undir nál. eftir ærnar deilur sem stóðu hér má segja allan þennan þingtíma. Þetta sýnir það að þegar menn eru lausir undan þvingu stjórnarsamstarfsins þá fara þeir að vinna sjálfstætt og af heilindum.
    Við bjuggum við þann vanda í vetur að hv. formaður landbn. mat líf ríkisstjórnarinnar meira en málefni landbúnaðarins og samstöðuna í landbn. en hér sjáum við þetta á nýjan leik að allir nefndarmenn skrifa undir. Hér er auðvitað verið að flytja mál sem ég held að séu öll mikilvæg landbúnaðinum um þessar mundir.
    Fyrsti liðurinn snýr að yfirstjórn á útflutningi. Í mínum huga er það enginn vafi að það er mikilvægt að Framleiðsluráðið komi þar að og miðað við þau miklu tækifæri sem íslenskur landbúnaður á nú þegar fólkið í heiminum gerir kröfur um hreinar og vistvænar afurðir þá verðum við að hafa á þessu atriði heildaryfirstjórn og standa vel að verki. Ég er sannfærður um það, og hef oft sagt það, að íslenskir bændur verða ekki frjálsir á ný fyrr en þeir hafa öðlast þá stöðu að þeirra hreinu og ómenguðu afurðir verða á nýjan leik útflutningsafurðir og þar eigum við ærin tækifæri í mörgum þjóðlöndum, bæði hér í Evrópu

og ekki síður í Bandaríkjunum. Og við eigum þann möguleika að selja þessa vöru okkar fyrir mjög hátt verð. Ég veit að landbúnaðinum, við núverandi aðstæður liggur mikið á í þessu efni. En þar mega menn auðvitað heldur ekki flana og því mikilvægt að landbúnaðurinn og heildarsamtök landbúnaðarins og stjórnvöld í landinu standi rétt að þessu máli. Þess vegna styðjum við framsóknarmenn þessa breytingu og teljum hana mikilvæga.
    Íslenska ríkisstjórnin glímir nú við það vandamál, sem hún ber alla ábyrgð á, að 8.000 Íslendingar ganga um þessar mundir án atvinnu. Og nú blasir það við þegar skólafólkið er að koma út á vinnumarkaðinn að þá fær það ekki vinnu í þeim mæli sem hér hefur verið um áratuga skeið. Því er mikil vá fyrir dyrum í landinu og því hefði ég talið eðlilegt við núverandi aðstæður að taka upp útflutningsbætur með einhverjum hætti til að flýta framgangi þess að ná þessum ágætu mörkuðum sem við eigum von í fyrir okkar kjöt og mjólkurafurðir.
    Síðan var það 2. liður þessarar brtt. sem snýr að því að heimilt sé að halda áfram beingreiðslum til þeirra framleiðenda sem vilja hætta sauðfjárframleiðslu á ákveðnum svæðum, á viðkvæmum gróðurfarslegum svæðum, að það sé heimilt að halda áfram beingreiðslum til þeirra þó þeir láti framleiðsluna af hendi en haldi í rauninni sínum eignarrétti á kvótanum. Þetta finnst mér sjálfsagt mál og styð hæstv. landbrh. í þessari viðleitni eins og nefndin öll.
    Síðan kemur þriðja atriðið í brtt. sem er um það að til komi sérstakt verðskerðingargjald bæði á sauðfjárafurðir og nautgripaafurðir til viðbótar því sem nú er heimilt og þetta sé tímabundið eins og hv. formaður nefndarinnar gat hér um.
    Í mínum huga er það enginn vafi að þessi ríkisstjórn vann mikið óheillaverk þegar búið var að skrifa undir búvörusamning og ákveða að bændur landsins skyldu bera ábyrgð á framleiðslunni. Þeir höfðu tekið á sig miklar skyldur og ákváðu að bera ábyrgð á framleiðslunni og ríkið átti hér mikið kjöt miðað við það kerfi sem áður hafði verið. Því gerðist það í ágúst 1992 að hæstv. landbrh. stal markaðnum af íslenskum bændum við þessi tímamót. Það voru alvarleg mistök. Ég hygg að hann hafi þar selt ein 500 tonn af lambakjöti á útsölu sem þýddi það að frá 1. sept. þegar bændurnir áttu að bera ábyrgð á markaðnum og taka við að selja sitt kjöt þá höfðu þeir ekki markaðinn því kaupmennirnir voru búnir að fylla sína klefa og frystikisturnar í landinu voru fullar af útsölukjöti ríkisins. Þarna var mikið óheillaverk unnið og íslenska bændastéttin hefur ekki komist frá þessu máli síðan þannig að það er mikið til af umframkjöti sem annars hefði ekki verið. Mín skoðun var ætíð sú að við þessi tímamót þegar íslenskir bændur voru að taka fulla ábyrgð á sölu kjötsins þá hefði það verið eðlilegt að landbrh. hefði beitt sér fyrir því á þeim tíma að það magn sem ríkið átt hér í stórum stíl hefði verið flutt á erlendan markað til þess að bændurnir byggju við þau tækifæri sem þeir bundu vonir við. Þannig styðjum við framsóknarmenn það að gefa nú árs tækifæri til þess að auka verðskerðingu á afurðum sauðfjár og nautgripa en þó eingöngu með það í huga að sá peningur verði notaður til útflutnings- og markaðsstarfa. Það held ég að sé mjög mikilvægt núna.
    Vandi landbúnaðarins snýr að ýmsum þáttum. Það er offramleiðsla ekki síst á nauta- og svínakjöti um þessar mundir. Sauðfjárbændur hafa nokkuð haldið sinni kjötsölu og sinni stöðu á markaðnum nú um nokkur missiri og er það vel. Ég er sannfærður um að það snýr ekki síst að þeim hlut að verja byggðir þessa lands. Ég er sannfærður um að það er sauðkindin og sala á afurðum hennar sem ræður því nokkuð hvort hér helst uppi byggð í landinu. Fyrir utan hitt að það er ekki vafi að við erum þar með einhverja bestu kjötafurð sem um getur í veröldinni. Um það vitna bæði innlendir og erlendir menn.
    Ég hygg að ef menn stæðu vel að verki þá gætu þeir á tiltölulega stuttum tíma náð tökum á þessum kjötmarkaði. Nú hefur verð til bænda ekki síst á nautakjötinu fallið mjög, kannski án þess að það verðfall hafi náð til neytendanna. Kaupmaðurinn hefur ekki skilað því svo í lægra verði eins og við væri að búast. En ég held að frelsið snúi ekki síst að því að viðhalda eðlilegu skipulagi og þess vegna finnst mér að þetta tímabundna atriði, sem landbn. leggur fyrir þingið, að ráðherra hafi heimild til þess að beita 5% verðskerðingargjaldi nú um eins árs skeið, sé ásættanlegt.
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu öllu lengri en ég fagna því auðvitað að landbn. er farin að vinna á nýjan leik af heilindum eftir margra mánaða deilur. Og ég vænti þess að þannig megi löggjafarþingið á Íslandi vinna í framtíðinni að það verði ekki hagsmunir eða líf ríkisstjórnar sem valdi því að hópur manna í slíkri nefnd séu undir annarlegum áhrifum og vinnubrögðum eða að það gerist að lítill flokkur eins og Alþfl., ( ÓÞÞ: Og minnkandi.) og síminnkandi, komist upp með það að hafa hér í hendi sinni heilt löggjafarþing sem er skipað 63 frjálsbornum mönnum sem hafa heitið kjósendum sínum og meira að segja eiðstafnum hér að láta sannfæringu sína ráða í störfum sínum. Þess vegna eru þetta mikil tímamót í hv. landbn. sem ber nú að fagna og jafnvel halda upp á.