Lyfjalög

142. fundur
Miðvikudaginn 27. apríl 1994, kl. 15:46:29 (6680)


[15:46]
     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (um fundarstjórn) :
    Virðulegur forseti. Ég mun vera næst á mælendaskrá þessu máli, þ.e. um lyfjalögin, og ég vil upplýsa það að ég ætlaði mér bara að tala einu sinni í þessari umferð Ég ætlaði ekki að tala aftur og ég ætlaði ekki að hafa hér langt mál. Ég hefði auðvitað kosið að formaður heilbr.- og trn. væri viðstaddur þegar sú umræða færi fram. Mér var ljóst í gærkvöldi að þetta mál yrði aftur á dagskrá í dag og ég vissi þá ekki annað en formaðurinn yrði hér viðstaddur. Nú eru þetta auðvitað lögmæt forföll sem hamla því að formaður sé hér núna, en þau voru sem sé ekki ófyrirséð þannig að það hefði verið mun hreinna gengið til verks ef það hefði verið upplýst í nótt hvernig yrði í pottinn búið og við hefðum þá getað tekið afstöðu til þess þegar málið var rætt á fundi þingflokksformanna í nótt.