Aukatekjur ríkissjóðs

143. fundur
Fimmtudaginn 28. apríl 1994, kl. 10:45:39 (6693)


[10:45]
     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Ég á sæti í virðulegri efh.- og viðskn. en var því miður ekki á þeim fundi þegar þetta mál var afgreitt út úr nefndinni og því kemur það ekki fram á nál. að ég styðji þetta frv. Þess vegna vil ég gjarnan að það komi skýrt fram hér í umræðunni að ég styð frv. eins og það er lagt fram en engu að síður hefði ég viljað útvíkka það aðeins og hef því leyft mér að leggja fram brtt. á þskj. 1009.
    Þetta mál fjallar um það að lækka gjaldtöku fyrir ýmis leyfi og skírteini, gjaldtöku sem hækkuð var stórlega í fjármálaráðherratíð hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar, en núna er verið að lækka aftur til betri vegar og á svona jarðbundnari nótum.
    Meginrökin fyrir því eru þau að menn eigi ekki að borga hærri fjárhæð fyrir útgefin leyfi heldur en kostar að gefa þau út og er verið að nálgast þann raunkostnað með þessu og færa þetta niður í 5 þús. kr. Það kemur mér hins vegar spánskt fyrir sjónir að einstakir aðilar eða eintstakar greinar vera teknar út en ekki farið alla leið og gætt samræmis í gjaldtökunni. Þannig er hátekjufólk núna lækkað úr allt að 75 þús. kr. gjaldtöku sem er í dag niður í samkvæmt frv. 5 þús. kr. og má t.d. nefna leyfi til málflutnings fyrir Hæstarétti sem í dag eru 75 þús. kr. en á að lækka niður í 5 þús. kr. Leyfi til að stunda almennar lækningar og sérfræðistörf er 75 þús. kr. í dag, fer niður í 5 þús. kr. Atvinnuflugmannsskírteini fer úr 25 þús. niður í 5 þús. kr. Löggilding endurskoðenda úr 75 þús. kr. niður í 5 þús. kr. og þannig mætti lengi telja og er þetta allt hið besta mál, enda styð ég málið.
    En þegar kemur hins vegar að 11. gr. sem er leyfi fyrir atvinnustarfsemi og tengd leyfi, t.d. heildsöluleyfi, umboðssöluleyfi, smásöluleyfi, lausaverslanaleyfi og leyfisbréf fyrir verðbréfafyrirtæki, þá er það óbreytt. Í þeirri grein er gjaldtaka frá 300 þús. kr. og niður í 3 þús. kr. Ég sé engin rök fyrir því að færa ekki þennan flokk niður alveg eins og hinn flokkinn. Ég hef ekki orðið var við það að kaupmaðurinn á horninu eða þeir sem reka söluturna velti sér upp úr fjármagni og sé enga ástæðu fyrir því að þessir aðilar skuli þurfa að borga 50--70 þús. kr. fyrir eitt leyfi sem kostar jafnmikið að gefa út og leyfi til að flytja mál fyrir Hæstarétti. Mér finnst engin efnisleg rök fyrir því að stíga ekki skrefið til fulls og gæta fyllsta jafnréttis sem ekki er gert í þessu tilfelli. Þess vegna hef ég leyft mér að flytja brtt. sem orðast svo, með leyfi forseta:
    ,,Við bætist ný grein, er verði 2. gr., svohljóðandi:
    11. gr. laganna orðast svo:
    Fyrir leyfi fyrir atvinnustarfsemi og tengd leyfi skal greiða 5.000 kr.
    Fyrir endurnýjun leyfa skv. 1. mgr. skal greiða 1.000 kr.``
    Ég vona að hv. þm. kynni sér þetta og sjái hvers lags óréttlæti í raun og veru er þarna á ferð, hvernig atvinnugreinum er mismunað á mjög áberandi hátt og í ljósi þess mun ég þá styðja þessa brtt.