Tekjuskattur og eignarskattur

144. fundur
Fimmtudaginn 28. apríl 1994, kl. 16:37:44 (6738)

[16:37]
     Frsm. efh.- og viðskn. (Halldór Ásgrímsson) :
    Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 1012 um frv. til laga um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, sem flutt var af þingmönnunum Tómasi Inga Olrich, Guðjóni Guðmundssyni og Sturlu Böðvarssyni.
    Efh.- og viðskn. hefur haft þetta mál til meðferðar alllengi og tekur undir það að nauðsynlegt sé að breyta skattalögum í því skyni að jafna aðstöðu fólks og það á við um þær aðstæður ef aðili á t.d. húsnæði á Akureyri, flytur tímabundið til Reykjavíkur eða annars staðar á landinu og leigir sína íbúð út en þarf að leigja á hinum staðnum. Í þessu tilviki þarf viðkomandi að greiða tekjuskatt af leigutekjunum en fær ekki kostnaðinn við húsnæði á öðrum stað til frádráttar.
    Hins vegar var nauðsynlegt að gera nokkrar breytingar á þessu frv. og brtt. er á þskj. 1011. Þar er ekki verið að breyta málinu beint efnislega heldur verið að taka af vafaatriði og laga frv. að tekjuhugtaki tekjuskattslaganna en í þeim lögum er alfarið byggt á því að skattskyldar tekjur séu skilgreindar sem brúttóstærðir og það varð til þess að nokkrir erfiðleikar komu upp í sambandi við skilgreiningu á málinu.
    Ég sé ekki ástæðu til þess, virðulegur forseti, að hafa fleiri orð um þetta mál. Vissulega mætti ræða það lengi og aðra annmarka á skattalögunum. Þetta er ekki eini annmarkinn sem er ástæða til að breyta því að skattalögin eru vissulega full af alls konar ákvæðum sem þyrfti að lagfæra og væri mikil ástæða til þess einhvern tímann áður en þinginu lýkur að taka um það líflega umræðu.