Lyfjaverslun ríkisins

145. fundur
Föstudaginn 29. apríl 1994, kl. 12:52:54 (6825)


[12:52]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Nú fara að vandast málin og tíðkast mjög hin breiðu spjótin, eins og segir í fornum sögum, hjá hæstv. fjmrh. Hann sagði áðan að hann hefði alvarlegar áhyggjur af því að skýrsla Ríkisendurskoðunar um SR-mjöl skaðaði Ríkisendurskoðun stórkostlega. Það eru býsna mikil tíðindi og býsna mikill dómur frá hæstv. fjmrh. að hann telur að skýrsla Ríkisendurskoðunar um SR-mjöl skaði þá stofnun stórkostlega.
    Nú vill svo til að Ríkisendurskoðun starfar samkvæmt lögum á vegum Alþingis, eins segir í 1. gr. þeirra laga. Og síðan segir í 2. gr., með leyfi forseta:
    ,,Forsetar Alþingis ráða í sameiningu forstöðumann stofnunarinnar til sex ára í senn og nefnist hann ríkisendurskoðandi.`` Í lok sömu greinar segir: ,,Forsetar Alþingis geta, að fengnu samþykki sameinaðs Alþingis, vikið ríkisendurskoðanda úr starfi.``
    Ég held að orð hæstv. fjmrh. séu með þeim hætti að forsetar Alþingis eða forseti Alþingis sem nú er staddur í salnum hljóti að velta því fyrir sér hvort það er óhjákvæmilegt, ef það er rétt sem hæstv. ráðherra segir að hér sé um meiri háttar afglöp að ræða, að víkja Sigurði Þórðarsyni ríkisendurskoðanda úr starfi. Ég tel satt að segja að þessar yfirlýsingar hæstv. fjmrh. séu ekki einasta stórfelld söguleg tíðindi heldur séu þær líka í hæsta máta lítið smekklegar nema hæstv. fjmrh. hafi þegar látið hæstv. forseta Alþingis vita um þá skoðun sína að ríkisendurskoðandi sé tæplega starfi sínu vaxinn.
    Ég mótmæli þessari yfirlýsingu hæstv. fjmrh. Ég tel hana ekki smekklega á þessu augnabliki.