Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

145. fundur
Föstudaginn 29. apríl 1994, kl. 14:40:47 (6835)


[14:40]
     Ingi Björn Albertsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég tek undir þann málflutning sem kom fram hjá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni að þetta virðist ganga út í öfgar. Hann nefndi dæmi um hagamúsina og ég verð að segja að það liggur við að maður sé hissa á því að sjá ekki verndun og friðun kartöflumúsarinnar í þessu, svo langt gengur málið.
    En að þessu sinni í þeim stutta tíma sem ég hef vildi ég gjarnan spyrjast fyrir um þá brtt. sem meiri hlutinn gerir varðandi óhlaðin skotvopn. Í frv. er sagt að þau verði að vera óhlaðin 50 metra frá vélknúnu farartæki en sú fjarlægð er aukin í 250 metra í brtt. Mig langar að spyrja hvernig meiri hlutinn hugsar þetta mál. Nú hagar þannig til að mjög víða er hægt að keyra eftir vegum og vegslóðum alveg upp í fjallsrætur og síðan upp á fjallið, jafnvel upp á topp. Þetta eru kannski ekki nema 30--40 eða einhverjir tugir metra þegar menn eru komnir inn á veiðisvæðið. Hvernig ætla menn að túlka þetta? Eru menn faktískt að loka eða friða heilu fjöllin fyrir skotveiðinni eða ber mönnum að leggja bílnum langt í burtu og taka það hagræði af mönnum að geta keyrt upp að fjallsrótum? Ég spyr þá líka: Hvernig sér meiri hlutinn það fyrir sér að framfylgja slíku ákvæði? 50 metrarnir þóttu nú ærið en það ákvæði að fara upp í 250 metra og gera mönnum bara erfiðara fyrir úti í náttúrunni skil ég ekki og ég óska eftir frekari skýringum á því.
    Ég óska líka eftir að heyra hver viðurlögin eru ef maður keyrir upp að fjallsrót og leggur bílnum sínum þar og labbar síðan 50 metra upp á fjall og fer síðan að skjóta rjúpu. Hver verða viðurlögin?
    Í þriðja lagi. Hvernig í ósköpunum ætla menn að fylgja þessu eftir? Hvar verða lögreglusveitirnar að fylgja þessu eftir? Þetta eru náttúrlega ákvæði sem er ekki hægt að framfylgja og því er þetta tóm della.