Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

145. fundur
Föstudaginn 29. apríl 1994, kl. 14:45:29 (6837)


[14:45]
     Ingi Björn Albertsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég er hræddur um að hv. þm. hafi að einhverju leyti misskilið mig. Ég talaði hvergi um það að menn væru að keyra upp á fjöll. Ég talaði held ég mjög skýrt um það að það væri keyrt að fjallsrótum eftir merktum vegarslóðum sem er heimilt samkvæmt frv. Þar segir orðrétt:
    ,,Vélknúin farartæki á landi má nota til að flytja veiðimenn til og frá veiðlendum og þá eingöngu á vegum eða merktum vegarslóðum.``
    Ég þekki alveg nógu vel til þess að vita að það eru fjölmargir merktir vegarslóðar upp að fjallsrótum og með þessu ákvæði hér er verið að meina mönnum að nota farartæki innan 250 metranna. Menn þurfa ekki annað en fara t.d. upp í Þrengsli. Þeir yrðu þá að leggja úti á þjóðvegi. Ég er hræddur um að það gæti stafað aukin hætta af því ef menn þurfa að leggja þar í vegarkantinum. Er það það sem hv. nefnd er að leggja til, að leggja til aukna slysahættu á þjóðvegum landsins? Það er eina afleiðingin sem getur orðið af þessu.
    Það er því alveg skýrt hvað frv. segir og það er alveg skýrt hver afleiðingin verður af þessu. Það efast enginn um að menn megi keyra á milli veiðisvæða, þó nú væri. Það væru aldeilis öfgarnar ef það væri líka bannað. Ég er því hræddur um að hv. þm. hafi misskilið mig verulega.
    Ég tel að þetta ákvæði hafi verið fullstrangt með 50 metrunum en með 250 metrunum sé farið út í hreinar öfgar og það verður að stöðva.