Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

145. fundur
Föstudaginn 29. apríl 1994, kl. 16:39:56 (6860)


[16:39]
     Jón Helgason (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Ég hafði ekki séð þessar brtt. hæstv. umhvrh. þegar ég flutti mína ræðu áðan, en mér sýnist að hér sé um að ræða svo veigamikið atriði að það sé gersamlega útilokað að halda áfram umræðum um þetta mál án þess að umhvn. gefist tóm til að athuga hvað í þessum brtt. felst. Ég sé að hér er gert ráð fyrir því að 16. gr. frv. falli brott, þ.e. greinin sem á að heimila selveiðar. Og það er sjálfsagt í öðrum liðum einhvern veginn reynt að láta eitthvað annað koma í staðinn, en það verða menn auðvitað að gera sér grein fyrir til þess að geta rætt um málið af einhverju viti. Það er ekki hægt að bjóða umhvn. að halda umræðum áfram um mál eftir að svona róttækt brtt. kemur fram án þess að gefa henni tækifæri til að átta sig á því og ræða það.