Lax- og silungsveiði

146. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 11:13:51 (6886)


[11:13]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég undrast nú að það skuli aðeins einu sinni hafa verið gefið út leyfi samkvæmt 72. gr., eins og hv. þm. sagði hér áðan, einfaldlega vegna þess að sá búnaður til veiða sem ég lýsti áðan er a.m.k. í tveimur hafbeitarstöðvum og búinn að vera þar í mörg ár. Þannig að ég vil gera ráð fyrir því að það hafi verið með leyfi, með tilvísun í einhver lög, og ég hafði ímyndað mér að það væri þá með tilvísun í þá grein sem þarna er verið að tala um.
    Það er líka gert ráð fyrir því að starfsemi hafbeitarstöðva hafi áhrif á veiðar á öðrum vatnasvæðum. Það er til dæmis að taka að hér er nefnt í i-lið, þar sem á við 70. gr.: ,,Nú veldur eldisstöð rýrnun á veiði í vatni og skal þá bæta tjónið eftir mati ef eigi semur.`` Það er því greinilegt að menn reikna með því að þarna verði einhver afföll á veiðum í nágrenni.
    Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu meira. Ég tel að það sé ástæða til að fylgjast vel með því hvernig þessum málum verði skipað í framtíðinni. Það er gert ráð fyrir að hafbeitarstöðvarnar geti veitt fisk fyrir utan sín svæði. Ég bendi á að t.d. í 73. gr. er gert ráð fyrir að það megi, þrátt fyrir friðun, veiða fisk innan við 200 metra frá stöðinni ef menn missa út fisk og það getur nú gerst býsna oft að menn missi hann út og þurfi þess vegna að nota sér þetta leyfi.