Tryggingagjald

146. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 11:22:33 (6891)

[11:22]
     Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. meiri hluta efh.- og viðskn. vegna frv. til laga um tryggingagjald, með síðari breytingum.
    Nefndin fjallaði allmikið um þetta mál og fékk á sinn fund þá Indriða H. Þorláksson og Snorra Olsen frá fjármálaráðuneytinu. Þá fékk nefndin umsagnir frá iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, Sambandi veitinga- og gistihúseigenda og Samtökum fiskvinnslustöðva. Enn fremur komu á fund nefndarinnar fulltrúar Samtaka iðnaðarins og hugbúnaðarfyrirtækja.
    Meiri hluti nefndarinnar vill gera þá tillögu til breytinga á frv. að það verði tekið inn að hugbúnaðariðnaður falli undir lægra þrepið í tryggingagjaldinu. Í stað þess að lægra þrepið hækki úr 2,85% í 2,95% þá verði hækkunin úr 2,85% upp í 3%, sem lægra þrepið færi þá í.
    Það var áformað á sínum tíma að lækka tryggingagjald af ferðaþjónustu, þ.e. hótelgistingu, veitingarekstri og útleigu bifreiða, niður í 2,85% en um sl. áramót var þeirri lækkun kippt til baka í framhaldi af breytingu á virðisaukaskattslögum. Þá kom upp mikil óánægja hjá þessum aðilum en núna er sem sagt verið að staðfesta það að þessi lækkun verði þannig að ferðaþjónustan fari í lægra þrepið og eins hugbúnaðariðnaðurinn.
    Það hefur komið fram að hugbúnaðariðnaðurinn á Íslandi er kominn í mjög mikla samkeppni við erlendan hugbúnað. Eins hefur það komið fram að þau fyrirtæki sem vinna að hugbúnaðarframleiðslu eru í auknum mæli farin að hasla sér völl á erlendum mörkuðum og að selja framleiðslu sína þangað. Það þýðir að hið háa tryggingagjald er farið að verða þessari atvinnugrein til mikilla trafala og því er lagt til af meiri hluta nefndarinnar að hugbúnaðariðnaðurinn fari í lægra þrepið.
    Nú er það svo að lægra þrepið stendur í 2,85% en vegna þessarar lækkunar verður ríkissjóður af töluverðum tekjum og því þarf að hækka lægra þrepið upp þannig að þetta verði samt svipaðar tekjur sem nást af þessum gjaldstofni. Það má kannski segja sem svo að það sé óeðlilegt til að byrja með að það séu tvö þrep í tryggingagjaldinu, að það væri eðlilegra að það væri bara eitt þrep fyrir allar atvinnugreinar vegna þess að mörkin á milli þess hvað er samkeppnisgrein og hvað er heimamarkaðsgrein eru sífellt að verða óljósari. En meiri hluti nefndarinnar gerir alla vega ekki á þessu stigi málsins tillögur til frekari breytinga á þessu kerfi.