Tryggingagjald

146. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 11:35:07 (6896)


[11:35]
     Egill Jónsson :
    Virðulegi forseti. Ég gat þess með skýrum hætti þegar þetta mál var kynnt í mínum þingflokki að ég hefði miklar efasemdir um þá skattlagningu sem frv. gerir ráð fyrir. Rökstuðningur minn var að því leyti og er afskaplega einfaldur að árið 1990, að því er ég hygg, var tryggingagjald hækkað, m.a. á landbúnað. Við umfjöllun málsins í þinginu kom það skýrlega fram að þessari hækkun á tryggingagjaldi ættu að fylgja réttindi til atvinnuleysisbóta í sveitum. Sjálfur var ég ekki sérstaklega ánægður með þessar breytingar, hvorki skattinn né heldur að bændur fengju þennan bótarétt því að ég sá fyrir mér að það yrði erfitt að framkvæma hann með sanngjörnum og eðlilegum hætti. Og nú hafa menn orðið vitni að því að það hafa verið settar reglur um greiðslu atvinnuleysisbóta sem gera það að verkum að vissir aðilar í þjóðfélaginu geta ekki notið atvinnuleysisbóta. Hér nefni ég til trillusjómenn, vörubifreiðastjóra og bændur. Og svarið við þeim áherslum sem komu fram árið 1990 birtast í hækkun á tryggingagjaldi. Í staðinn fyrir að njóta réttinda er mönnum gert að greiða hærri skatta. Ég hefði fyllilega getað fellt mig við að þessi réttindi væru felld út, t.d. gagnvart landbúnaðinum, og tryggingagjaldið væri lækkað á landbúnaði að sama skapi. Það væri fullkomlega ásættanlegt frá minni hendi. En það að sleppa atvinnuleysisbótarétti gagnstætt því sem var lagt til grundvallar árið 1990 og auka skattheimtu getur auðvitað ekki gengið upp. Það er að sjálfsögðu alveg útilokað að vinna með þeim hætti.
    Ég skil út af fyrir sig stöðu ferðaþjónustunnar og hér hefur verið fjallað um erfiðleika í þeim rekstri sem víða kemur fram. En er eitthvað betra umhorfs í sveitum landsins? Er staða íslenskra bænda þannig að það sé hægt að miðla fjármagni frá þeim yfir í hótelrekstur á Íslandi eða ferðaþjónustu? Ég segi nei. Og ég fullyrði að það sé ekki hægt. Og það er engan veginn ásættanlegt að afgreiðslan á tryggingagjaldinu verði eins og hér er lagt til. Ég skora á frsm. að taka þetta mál til endurskoðunar og breyta þessum tillögum fyrir 3. umr. Annað er ekki ásættanlegt frá minni hendi.