Tryggingagjald

146. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 11:52:57 (6907)


[11:52]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Þetta frv. er nokkuð margrætt því í því felast óumdeilanlega jákvæðir þættir þar sem er samræming tryggingagjaldstökunnar innan ferðaþjónustunnar. Á það var og hefur margoft verið bent þegar skattlagningarmál ferðaþjónustunnar hafa verið til umfjöllunar á undanförnum missirum, nú síðast fyrir síðustu áramót, að uppgjör þessara mála á þeim grundvelli sem þar var ráð fyrir gert væri gersamlega vonlaust. Ég man að ég margspurði að því og benti á það í ræðum í desembermánuði sl. hvort menn ætluðust virkilega til þess að hótelreksturinn og samsettur rekstur í ferðaþjónustunni færi að leggja það á sig að reyna að greina þetta sundur og borga af þessu með mismunandi prósentum og að það yrði gert af einhverju viti. Auðvitað er niðurstaðan sú að það er alveg ómögulegt og ég fagna því að menn hafa áttað sig og leggja nú til að eitt verði látið yfir ganga, bæði hótelgistingu, sem fengið hefur á sig virðisaukaskatt illu heilli, og einnig veitingareksturinn og útleigu bifreiða þó þar sé ekki um virðisaukaskattsskylda þjónustu að ræða. Þetta er gott og blessað og sömu leiðis sú brtt. meiri hlutans sem samstaða var um í efh.- og viðskn. að taka hugbúnaðariðnaðinn þarna með. Þá er líka upptalið það sem er jákvætt í þessu frv.
    Það sem er neikvætt í því er auðvitað sú hækkun á lægra þrepinu sem er lögð til grundvallar til að fjármagna tekjutapið vegna niðurfellingarinnar á hinum þáttunum. Það er að mínu mati afar óheppileg ráðstöfun að velja þá leið að fjármagna tekjutap ríkissjóðs að fullu og öllu með sambærilegri hækkun hvað tekjur snertir í lægra þrepinu. Auðvitað eru engin sérstök rök fyrir því að tekjutap ríkissjóðs vegna þess að tryggingagjald er lækkað á tilteknum útflutningsgreinum skuli endilega borið uppi með meiri tekjuöflun af lægra þrepi tryggingagjalds. Það er ekki svo. Að sjálfsögðu getur ríkissjóður bætt sér þetta með öðrum hætti, annarri tekjuöflun eða hreinlega látið það ógert og látið það mál bíða afgreiðslu næstu fjárlaga og næstu tekjuöflunaráætlunar ríkissjóð fyrir árið 1995. Það yrði enginn héraðsbrestur þó að á síðari hluta þessa árs töpuðust nokkrar tekjur vegna þessarar niðurfellingar. Ég bendi á að þetta á ekki að taka gildi fyrr en 1. maí reyndar samkvæmt frv., það verður nú tæplega úr þessu, hæstv. forseti, þannig að ég gef mér að gildistökunni verði frestað a.m.k. til 1. júní eða eitthvað því um líkt og þá er árið langleiðina hálfnað. Þannig að tekjutapið sem hér er reiknað út á ársgrundvelli yrði þá niður undir helmingurinn af því. Það er því auðvitað enginn héraðsbrestur hvað þá landsbrestur þótt ríkissjóður yrði af einhverjum tugum milljóna á síðari hluta ársins.

    Það sem er afar óheppilegt við þessa aðferð sem hér er lögð til er það að með þessu er atvinnugreinunum í raun stillt upp sem andstæðingum. Og útflutningsgreinarnar, sjávarútvegur, landbúnaður og aðrar greinar sem eru á lægra þrepinu koma út sem hálfgerðir andstæðingar hinna greinanna sem fá tiltekna lagfæringu. Af því að það er ekki svo að tekjuöflun ríkisins sé svo nákvæmlega niðurhólfuð að akkúrat einhver tiltekin prósenta skuli koma af tryggingagjaldi og enn önnur frá tekjuskatti fyrirtækja eða einstaklinga og svo framvegis þá er þetta auðvitað ekki frambærilegt. Að vísu má segja að tekjum af tryggingagjaldi sé að hluta til ráðstafað með ákveðin verkefni í huga, þ.e. Atvinnuleysistryggingasjóð, Vinnueftirlit ríkisins, slysa- og sjúkratryggingar og fleira því um líkt. Þá eru það kannski rök í einhverra huga fyrir því að færa þetta til innan tryggingagjaldsins. En þau eru ekki fullnægjandi að mínu mati með þeim rökum sem ég hef gert grein fyrir að það er afar óheppilegt að stilla málinu svona upp að aðrar greinar óskyldar þurfi að borga þessa lagfæringu á starfsgrundvelli ferðaþjónustunnar og hugbúnaðariðnaðarins. Það er ekki mjög gott að málin lendi í þannig uppstillingu. Það er alveg bölvað. Og tekur náttúrlega steininn úr þegar svo háttar til eins og hér gerist a.m.k. gagnvart landbúnaðinum, að þessi íþyngjandi ráðstöfun gagnvart landbúnaðinum vegna þess að verið er að lagfæra starfsskilyrði hugbúnaðariðnaðarins og ferðaþjónustunnar bitnar á grein sem ekki nýtur svo réttindanna sem á bak við standa. Það er von að hv. þm. Agli Jónssyni, formanni landbn., sem varð heimsfrægur í vetur, að vísu varð kannski dálítið stjörnuhrap að lokum þegar ríkisstjórnin magalenti og ekki síst hv. þm. í búvörudeilunni, renni blóðið til skyldunnar og hann leggi leið sína hingað í ræðustólinn og mótmæli þessu. Eins og þetta birtist landbúnaðinum, að fá á sig 0,15% hækkun tryggingagjaldsins vegna lagfæringar á starfskjörum óskyldra atvinnugreina og njóta svo engra réttinda á móti, þá er náttúrlega varla von að menn séu mjög hýrir með það. Þeir komu á fund efh.- og viðskn. frá sjávarútveginum og fleiri og töldu þetta svo fráleitan málflutning að það tæki engu tali og þyrfti varla að ræða það að svona gætu menn ekki gert. Ég man að framkvæmdastjóri LÍÚ gekk út úr dyrunum með þeim orðum að hann sæi ekki ástæðu til að vera að mæta á fund nefndarinnar út af þessu máli svo sjálfgefið væri það að svona gætu menn ekki afgreitt það. Það væri svo fráleitt og út úr öllu korti að honum datt ekki í hug að nefndin mundi leggja það til og taldi þess vegna að það gæti ekki verið tilefni til að koma sérstaklega á fund nefndarinnar út af þessu litla máli.
    Vegna þeirra orðaskipta sem urðu á milli hv. þm. Egils Jónssonar annars vegar og hins vegar hæstv. fjmrh. og hv. 5. þm. Norðurl. v. ,Vilhjálms Egilssonar, út af þessu þá vil ég náttúrlega segja að það var rétt sem fram kom hjá hæstv. fjmrh. að þegar tryggingagjald var innleitt gagnvart landbúnaðinum um áramótin 1990/1991 þá var það ekki í neinum beinum tengslum við lagabreytingar eða ákvarðanir um réttindi þeim til handa til atvinnuleysisbóta sem landbúnað stunda en sú umræða kom upp beint í kjölfarið. Mér er það mjög minnisstætt sem þáv. landbrh. að bændur komu strax fram með þær réttmætu kröfur að um leið og þeir væru orðnir aðilar að þessu kerfi og greiddu tryggingagjald yrði að taka atvinnuleysisbótaréttindi þeirrar stéttar til skoðunar. Og í þeirri vinnu sem á næstu mánuðum fór fram við gerð búvörusamningsins var þetta mál iðulega tekið upp á borðið. Það er því hvort tveggja rétt að þetta var ekki í beinum tengslum varðandi afgreiðslu á Alþingi en hitt er jafnljóst að frá upphafi voru forsvarsmenn bænda með þá eðlilegu og réttmætu kröfu uppi að þeir sem á annað borð væru farnir að greiða gjöld til þessa kerfis og fjármagna það yrðu auðvitað að koma til álita sem njótendur réttindanna.
    Þá verð ég í leiðinni, hæstv. forseti, af því að tryggingagjaldið er á dagskrá og umræðan hefur leiðst inn á þetta svið, réttindin sem á móti koma, að inna hæstv. fjmrh. eftir því hvernig þessi mál standa. Er það virkilega svo að þingið eigi að fara heim í maímánuði 1994 og það hafi ekkert gerst varðandi réttindi sjálfstætt starfandi og einyrkja í þessum atvinnurekstri? Þá er ég auðvitað ekki bara að tala um bændurna heldur er ég líka að tala um þá hópa sem misstu beinlínis réttindi við síðustu breytingar, eins og vörubílstjóra og trillusjómenn.
    Hæstv. félmrh. upplýsir það í umræðum á Alþingi að það sé löngu tilbúin reglugerð í félmrn. sem eigi að rýmka réttindi sjálfstætt starfandi atvinnurekenda, hún sé til skoðunar í fjmrn. og þar við sitji. Það var ekki hægt að skilja hæstv. félmrh. öðruvísi en svo að fjmrn. lægi á reglugerðinni. Ég spyr hæstv. fjmrh.: Er þetta svona? Er fjmrn. að þvælast fyrir í þessu máli og stöðva reglugerð félmrh.? Ef svo verður þá um endanlega stöðvun að ræða eða er þess að vænta að pappírinn komist í gegnum síuna einhvern tímann á næstu dögum?
    Ég hef áður lýst því yfir, hæstv. forseti, að ég mun ekki þegjandi og hljóðalaust una því að þingið verði sent heim fyrr en kominn er botn í þetta mál. Það er alveg gjörsamlega óviðunandi og ekki hægt fyrir þingið sem afgreiddi í fyrra lagabreytingar með það í huga að auka réttindi manna gagnvart þessum efnum og taka nýja hópa inn. Það var gagngert yfirlýstur tilgangur breytinganna að rýmka reglur um atvinnuleysisbætur þannig að sjálfstætt starfandi atvinnurekendur sem áður höfðu legið utan garðs kæmust þarna inn. Það var aldrei á það minnst að einstakir hópar ættu að missa réttindi sín. En hver er niðurstaðan? Heilt ár er liðið þannig að þessar breytingar hafa kostað hópa réttindin sem höfðu þau áður. Þvert ofan í það sem Alþingi ætlaðist til með breytingunum. Og þá verður annað tveggja að gerast að Alþingi hreinlega með afdráttarlausum hætti í lögum tryggi þessum hópum þessi réttindi eða það sem hæstv. ríkisstjórn hefur þóst geta gert það geri hún og komi loksins frá sér þessari breyttu reglugerð sem opni sjálfstætt starfandi atvinnurekendum leið inn á bótakerfið, þar með talið þeim sem höfðu það fyrir, eins og vörubílstjórar, en misstu þær við þessar ólánssömu breytingar.

    Það er alveg úrslitaatriði af minni hálfu að þingið fari ekki heim fyrr en kominn er botn í þetta mál. Og úr því að þetta mál ber á góma undir þessu dagskrármáli og hv. 3. þm. Austurl. m.a. tekur það gagngert upp vegna bændanna þá fylgi ég því eftir.
    Þannig er, hæstv. forseti, að ég er ekki aðili að nál. minni hluta efh.- og viðskn. sem er birt á þskj. 1120 og er þar titlaður sem 1. minni hluti. Ég hef ekki skilað sjálfstæðu nál. en ætla að gera grein fyrir afstöðu minni til málsins munnlega og áskil mér allan rétt til að fylgja því eftir ef svo ber undir með einhvers konar frhnál. eða nál. á síðari stigum.
    Ástæða þess að ég skrifa ekki upp á nál. er ekki sú að ég sé efnislega í grundvallaratriðum ósammála 1. minni hluta, en hann skipa þingmenn Kvennalista og Framsfl., heldur að í því nál. er vísað til tillagna þess sama minni hluta í skattamálum um áramótin. En þannig háttaði til að ég varð ekki samferða þeim minni hluta efh.- og viðskn. hvað varðaði afstöðu til skattamála og meðferð þeirra á þinginu og flutti um það sjálfstæðar og sérstakar breytingartillögur því Alþb., sjálfu sér samkvæmt, studdi þá lækkun á matarskatti sem kom til framkvæmda um síðustu áramót öfugt við Framsfl. og Kvennalistann. Alþb. hafði lengi og í raun og veru frá upphafi barist fyrir því að skattlagning á brýnustu lífsnauðsynjar, matvæli og fleiri vörur, væri lægri en á aðrar neysluvörur og þess vegna töldum við sjálfgefið að taka þátt í því að afgreiða þá breytingu um síðustu áramót og greiddum henni atkvæði okkar. Af þeirri einu ástæðu kom strax í upphafi ekki til álita af minni hálfu að skrifa upp á nál. 1. minni hluta úr því að það var svona úr garði gert sem var í sjálfu sér ekki mitt mál að ákvarða heldur útbúið svona af fulltrúum þessara flokka. Þá verð ég að segja að úr því það mál kemur hér einnig fyrir í formi þessarar vísunar í nál. 1. minni hluta þá er óhjákvæmilegt að rifja það upp í leiðinni, úr því að minni hlutinn er nú enn við það heygarðshorn að vísa í sínar merkilegu tillögur um skattamál frá síðasta þingi, að nú er kominn tiltekinn dómur reynslunnar á þessar breytingar. Hvernig er hann? Jú, hann er sá að matvælaverðið hefur lækkað fyllilega til samræmis við það sem spáð var og vonir stóðu til fyrir síðustu áramót þegar verið var að afgreiða þessar breytingar. Ítarleg könnun sem Hagstofan hefur unnið í samráði við verkalýðshreyfinguna hefur verið birt. Alþýðusamband Íslands hefur staðið fyrir birtingu á henni og sent frá sér fréttatilkynningu um það. Þar kemur í ljós að verðið á viðkomandi matvörum hefur í mörgum tilvikum lækkað um full 10% og í raun og veru hafa gengið eftir björtustu vonir manna og væntingar um það að matvælaverðið mundi lækka með þessum breytingum.
    Þetta er hlutur sem á fullkomlega erindi inn í umræðuna og á þingspjöldin eftir alla umræðuna sem varð um síðustu áramót. Það er út af fyrir sig athyglisvert að fulltrúar 1. minni hluta skuli vera svo kjarkaðir að vísa eftir sem áður í þessa skattaafgreiðslu um jólin vegna þess að hinu gagnstæða var haldið fram ekki síst af þessum hv. þm. Ég vil sem sagt leyfa mér að minna á þetta af því að málið er svona fram borið af 1. minni hluta að það er vitnað í þessar skattatillögur og jafnframt undirstrika að við þingmenn Alþb., sem studdum þessar breytingar og lækkun á matarskattinum, höfum síður en svo ástæðu til að sjá eftir okkar afstöðu í þessum efnum því nú hefur dómur reynslunnar sýnt að það var rétt að þarna var á ferðinni beitt aðgerð til að lækka verð brýnustu lífsnauðsynja fjölskyldnanna í landinu og hefur sannanlega skilað sér með þeim hætti að það er ástæða til að fagna því.
    Ég held þess vegna að það sé ekki í sjálfu sér endilega tilefni til að vera að vísa í einhverjar tilteknar hugmyndir um tekjuöflun öðrum fremur. Staðreyndin er sú, eins og ég sagði hér í upphafi, að það er ekkert stórmál þó þessi lagfæring á tryggingagjaldinu kæmi til framkvæmda gagnvart ferðaþjónustunni og hugbúnaðariðnaðinum og síðan yrði tekið á fjáröflun á móti í tengslum við almenn fjáröflunarmál við afgreiðslu næstu fjárlaga. Þarna væru á ferðinni einhverjir tugir milljóna sem er ekki stórmál í mínum huga. Jafnvel mundi ég frekar vilja, ef málið snýst um það að afla tekna, skoða það með hæstv. fjmrh. að gera það með einhverjum öðrum og almennari hætti en þeirri uppstillingu mála að lagfæring á starfskjörum tveggja atvinnugreina, eins og ferðaþjónustunnar og hugbúnaðarins, sé borguð með íþyngjandi ráðstöfunum gagnvart öðrum og óskyldum þáttum í atvinnulífinu og það jafnvel greinum eins og landbúnaðinum sem ekki nýtur neinna réttinda á móti. Það er alveg ómöguleg uppstilling.
    Auðvitað er það svo að skattlagningar- og fjáröflunarmál, ekki síst atvinnulífsins og fyrirtækjanna, þarf að taka til heildarendurskoðunar og samræmingar. Þetta er allt of mikið út og suður og ég held að það þurfi að fara yfir það hvernig sköttum hefur verið létt af fyrirtækjunum í stórum stíl sem er auðvitað ein ástæða þess að nokkur fyrirtæki eru nú að gera upp með alveg bærilegum hagnaði og gætu vel greitt af þeim hagnaði skatttekjur til ríkisins. Ég tel að það sé búið að ganga allt of langt í lækkun tekjuskatts fyrirtækja. Það er engin ástæða til að færa hann svona langt niður fyrir skattprósentu einstaklinganna og það furðulega er þegar það er athugað að Ísland er farið að skera sig úr í hópi vestrænna ríkja, OECD-ríkja, fyrir hvað? Ekki fyrir háa skatta á fyrirtækjum, eins og hér er búið að tönnlast á, nei, fyrir lága skatta á fyrirtækjum. Menn geta farið yfir þetta ef þeir trúa mér ekki. Ég hef nýlega gert það og fengið vandaða úttekt á því sem styðst við gögn frá Efnahags- og framfarastofnuninni að Ísland og reyndar mörg hinna Norðurlandanna einnig eru að verða í sérflokki hvað snertir lága skatta á fyrirtæki en háa skatta á almenna launamenn í formi hárra tekjuskatta og hárra neysluskatta. Og það er t.d. athyglisvert að einmitt skattar á atvinnulífið sem tengjast launaútgjöldunum eru með því lægsta sem þekkist á Íslandi. Þær tölur eru víða á bilinu 6, 8 og upp í 12--14% annars staðar, en hér erum við að tala um mun lægri tölu.
    Ég er að vísu þeirrar skoðunar að tekjuskattsálagning sé auðvitað miklu réttlátari og þá önnur afkomutengd tekjuöflun. Í staðinn fyrir aðstöðugjaldið sem var meingallaður skattstofn komi t.d. aðrir afkomutengdir gjaldstofnar þannig að skattlagningin verði ekki í sama mæli flöt og áður var. En það er alveg ljóst að mínu mati að það þarf að fara yfir og skoða þessi mál öll í samhengi.
    Ég held að það þurfi t.d. líka að velta því fyrir sér hvernig þessar breytingar í heild sinni hafa komið út gagnvart einstökum greinum. Því er haldið fram af mörgum sem starfa í sjávarútvegi að öfugt við það sem sagt var, að niðurfelling aðstöðugjaldsins þar mundi leiða til bættra starfsskilyrða sjávarútvegsins, þá hafi hækkun tryggingagjaldsins og upptaka tryggingagjalds á t.d. launagreiðslur til sjómanna verkað þannig að í raun sé um íþyngingu að ræða. Fyrirtæki sem kannski borguðu 15 millj. í aðstöðugjald borgi núna 30 millj. meira en áður í launatengdum gjöldum. Þessa hluti þarf auðvitað að fara yfir því hver var ein meginröksemdin fyrir almennri niðurfellingu aðstöðugjalds? Hún var erfiðleikar sjávarútvegsins. Og menn gengu svo langt í því, menn voru svo flottir á því, að þeir felldu niður aðstöðugjaldið af Eimskipafélaginu vegna þess að sjávarútvegsfyrirtæki einhvers staðar úti um landið áttu bágt og í erfiðleikum. En nú er Eimskipafélag Íslands að gera upp með hartnær 400 millj. kr. hagnaði og inn í það kemur auðvitað einhverra tuga milljóna króna niðurfelling aðstöðugjalda af því fyrirtæki. Ég spyr: Er þetta skynsamlegt og gáfulegt? Er Eimskipafélagið ekki aflögufært í sameiginlega sjóði landsmanna borið saman við til að mynda þær skattahækkanir á almenna launamenn sem gengið hafa yfir að undanförnu? Ég held það. Og að vera kominn með tekjuskattsprósentu fyrirtækjanna niður í 33% en hæstu skattprósentu á einstaklingum um eða yfir 45%, og náttúrlega enn hærri þegar tekjutenging ýmissa bóta er tekin með í reikninginn, þá er jaðarskattprósentan á launum á ákveðnum tekjubilum milli 100 og 200 þús. kr. á mánuði hjá fjölmörgum fjölskyldum í landinu milli 60--75%. Það er auðvitað alveg óheyrilegt að menn skuli vera að borga í raun af krónum sem þeir fá í kaup á því bili, fjölmargar fjölskyldur í landinu, svona prósentur á sama tíma og gróðafyrirtækin eru komin niður í 33%.
    Ég vil því, hæstv. forseti, að lokum beina þeim eindregnu tilmælum til hæstv. fjmrh. að hann taki það til íhugunar að frekar en að afgreiða frv. svona, sem er meingallað og sætir hér andstöðu m.a. frá stjórnarþingmönnum, þá verði það tekið til skoðunar að gera þessa lagfæringu núna um mitt árið því að gildistakan verður varla fyrr og láta það liggja á milli hluta hvort um sérstaka fjáröflun á móti verði að ræða. Ætli það sjáist nú á svörtu, hallann hjá hæstv. fjmrh., einhverjir fáeinir tugir milljóna út af þessu. Það er náttúrlega svo langt, langt innan skekkjumarka að það er ekki nokkur leið að mæla það og ýmislegt annað hægt að gera líka ef menn vilja sérstaklega hafa það í huga að jafna reikningana, t.d. skera niður einhverjar flottframkvæmdir hér sem eru kannski ekki alveg lífsnauðsynlegar eða brýnar. Ætli þeir þyldu það ekki í Hæstaréttarhúsinu að hægt væri þar á framkvæmdum um einhverja tugi milljóna og það látið mæta þessu eða svo, væri ekki vitlausara en hvað annað. En svona uppstilling er afar óheppileg og vanhugsuð.
    Að lokum, hæstv. forseti, þá held ég að það sé alveg borðleggjandi eftir orðaskipti stjórnarliða hér áðan að við stjórnarandstæðingar hljótum að óska eftir því að málið komi aftur inn í efh.- og viðskn. Það var aldrei á það minnst í meðförum nefndarinnar að það væri ágreiningur í stjórnarliðinu um meðferð þessa máls og að það væri ekki stutt af öllum stjórnarþingmönnum. Við höfum gengið út frá því að hér væri venjulegt stjfrv. á ferðinni og nyti stuðnings meiri hlutans og allra stjórnarþingmanna en nú er annað uppi á teningnum. Nú koma hér upp stjórnarþingmenn og lýsa yfir andstöðu við málið. Þeir segjast að vísu hafa haft um það fyrirvara í sínum þingflokkum en það vissum við ekki. Í ljósi þessa held ég að það sé alveg einsýnt mál að í kjölfar þessarar umræðu og reyndar væri nú enn heppilegra á meðan hún hún stendur, þá verði henni bara frestað og málið komi aftur til efh.- og viðskn. þar sem okkur gefist þá tóm til þess að fara yfir það í ljósi þessara nýju upplýsinga.