Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 19:01:12 (6962)


[19:01]

     Guðmundur Bjarnason (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hv. 5. þm. Norðurl. e. svaraði sér auðvitað sjálfur í þessum fyrirspurnum sem ég held að hann hafi beint til mín. Hann las upp nákvæmlega það sem ég gerði í minni ræðu áðan og eru þau rök þegar maður les þessa setningu, ég get ekki skilið hana örðuvísi, ég ætla ekki að eyða tímanum í að lesa hana aftur, en í henni standi í raun á mannamáli, eins og stundum er nú sagt, að fyrirtækið var selt of ódýrt, fyrirtækið var selt á of lágu verði. Hann getur lesið þetta eins oft og honum sýnist fyrir mér án þess að það breytist, að þetta er niðurstaðan.
    Ég rakti það áðan í lok svars míns til hæstv. landbrh. hvernig mér sýndist hið raunverulega verð á fyrirtækinu vera kannski 600 til 650 millj. Það er undir því verði sem VÍB mat í lægri kantinum. Síðan má segja það og hæstv. sjútvrh. hefur sagt það í umræðunum að það er enginn sem segir að verðið sé nákvæmlega þetta eða nákvæmlega hitt. Það verður að vera tilfinning þeirra sem eru að selja og ég sagði áðan að ég teldi að verðið væri of lágt. Sjútvrh. er búinn að segja það með því að samþykkja söluna að hann hafi talið verðið ásættanlegt.