Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 21:15:24 (6972)


[21:15]
     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Það undrar mig þegar hv. þm. Vilhjálmur Egilsson segir að meira að segja framsóknarmaður á Siglufirði sé hluthafi. Hvers lags ósvífni er þetta? Veit hann ekki að framsóknarmenn eru í hlutafélögum vítt og breitt um allt land í atvinnurekstri? Hvaðan er maðurinn að koma? Var það eitthvað svo stórkostlegt að það skyldi vera framsóknarmaður í hópnum? Ég vona að þeir séu fleiri, ég segi það hreint út.
    Þetta segir nefnilega merkilega sögu. Það er hugsanlegt að á einum stað hafi verið farið yfir listann til að skoða þetta og merkja hvar menn væru í pólitík. Og fulltrúi Verslunarráðsins, hv. 5. þm. Norðurl. v., fór í að skoða þetta eftir að búið var að merkja. ( StG: Og borið saman við kjörskrána.) Og borið saman við kjörskrána. Þetta er alveg furðulegt að hv. þm. skuli leyfa sér slíka ósvífni úr ræðustól og ég vona að það gerist aldrei aftur að menn fari að blanda pólitík inn í hlutafjárkaup hjá ríkinu.