Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 23:01:21 (7009)


[23:01]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Aðeins í beinu framhaldi af orðum hv. 5. þm. Norðurl. e. núna og þeim orðaskiptum sem fóru fram um það mál þá stendur á bls. 41:
    ,,Að mati Ríkisendurskoðunar verður tilboð Jónasar A. Aðalsteinssonar hrl. og Benedikts Sveinssonar hrl. ekki talið verðtilboð í skilningi útboðsgagnanna heldur fremur staðfesting á áhuga þess hóps sem þeir fóru fyrir`` o.s.frv.
    Þetta er niðurstaðan. Þannig að hvorugur aðilinn er með gilda niðurstöðu samkvæmt þessum texta þó að að því er varðar Sigurð Guðjónsson hrl. sé fastar að orði kveðið en í hinu tilvikinu. ( ÓÞÞ: En breytist merkingin ef sjálfstæðir þingmenn skoða þetta?) Það er þess vegna útúrsnúningur að setja hlutina upp eins og hér var gert áðan, hæstv. forseti.
    Virðulegur forseti. Ég tel að hér hafi farið fram að mörgu leyti mjög merkileg umræða. Ríkisendurskoðun sendir okkur skýrslu og það hefur tekið talsverðan tíma að fá þá skýrslu, koma henni til umræðu og fá hana til eðlilegrar meðferðar. Ríkisendurskoðun fær við útgáfu þessarar skýrslu býsna alvarlegar ásakanir yfir sig frá hæstv. fjmrh. sem segist hafa verulegar áhyggjur, að ég segi ekki stórkostlegar áhyggjur af Ríkisendurskoðun, vegna þessarar skýrslu og í framhaldi af henni koma síðan nokkrir aðilar og gera athugasemd við skýrsluna. Hvað gerist þá? Ríkisendurskoðun sendir hér inn í dag nýja skýrslu upp á 24 vélritaðar A4 síður þar sem í rauninni öll þau atriði sem eru talin gagnrýniverð í hinum skýrslunum eru tekin til meðferðar og þeim er svarað fullum hálsi og með fullum rökum í þessu plaggi.
    Ég held að það sé nauðsynlegt að hafa það í huga að hér er ekki um það að ræða að Ríkisendurskoðun, þessi stofnun Alþingis, hafi látið fjmrh. eða aðra aðila á hans vegum eða annarra berja sig niður. Ríkisendurskoðun heldur fast við sín sjónarmið í þessu máli. Mér finnst það satt að segja dálítið alvarlegur hlutur ef þessi virðulega stofnun ætlar að segja sem svo: Við látum það sem vind um eyru þjóta.
    Ég tel að oft megi gagnrýna Ríkisendurskoðun. Ég tel að það sé nauðsynlegt að leggja á það áherslu að það sem Ríkisendurskoðun segir er ekki dómur heldur umfjöllun og niðurstaða stofnunar. Engu að síður er það svo að í þessu máli er sérstök ástæða til þess að hlusta og hvað hefur svo komið fram í dag? Í þessum löngu, miklu umræðum um málið hefur þetta komið fram, með leyfi forseta:
    Í fyrsta lagi segir Ríkisendurskoðun að reglur um framkvæmd einkavæðingar hafi ekki verið framkvæmdar eins og þær voru samþykktar í ríkisstjórninni. Það er viðurkennt af öllum. Það er gagnrýnisatriði númer eitt og viðurkennt af öllum aðilum.
    Í öðru lagi: Ráðgjöfin er ekki eins vönduð og æskilegt hefði verið. Ég viðurkenni út af fyrir sig að þetta er mat Ríkisendurskoðunar en það er ekki hægt að hrekja það í sjálfu sér með þeim yfirlýsingum sem fram hafa komið m.a. frá hæstv. sjútvrh.
    Í þriðja lagi segir: Það er óviðunandi að fela einum aðila að meta framtíðartekjuvirði fyrirtækisins. Þessu mótmælir enginn og hæstv. fjmrh. viðurkenndi fyrir nokkrum dögum í umræðum um Lyfjaverslun ríkisins að það væri eðlilegt að fela fleiri en einum aðila að meta framtíðartekjuvirði fyrirtækja sem væri verið að fjalla um að selja.
    Í fjórða lagi segir Ríkisendurskoðun: Eigandi á við þessar aðstæður, þ.e. ríkið, að gera samanburðarúttekt á málinu áður en hrapað er að niðurstöðu. Því mótmælir enginn.
    Í fimmta lagi er sagt í skýrslu Ríkisendurskoðunar á bls. 7 og rökstutt síðar: ,,Verðmæti fyrirtækisins var hærra en endanlegt kaupverð.`` Fyrirtækið var selt á undirverði, segir Ríkisendurskoðun.
    Í sjötta lagi segir: Það vantaði skriflegan samning um þjónustu sem veitt var vegna sölu þeirra hluta sem þarna var um að ræða. Og enginn mótmælir því.
    Í sjöunda lagi er það gagnrýnt að það er tekið, ekki lægsta heldur næstlægsta tilboði í þessa þjónustu sem er 9,5 millj. kr. hærra en það hefði þurft að vera. Enginn mótmælir því að hér hafi verið gengið furðu langt fram af þeim aðilum sem seldu fyrirtækið, eins og fram kemur á bls. 20.
    Loks er það svo, sem Ríkisendurskoðun gerir í sjálfu sér ekki svo mikið úr en ég tel sérstaklega gagnrýni vert, að fresturinn er fáránlega stuttur. Sjá menn ekki hvað það er fráleitt að ætla sér að selja fyrirtæki, tilkynna það 21. des. og fresturinn sé til 28. des. Hvað eru margir vinnudagar frá 21. til 28. des.? Þeir eru þrír. Það var alveg útilokað fyrir aðila eins og bæjarstjórn Akureyrar að ná saman sínu fólki til eðlilegra fundarhalda og samráðs og kalla til enn fleiri aðila til að ná lendingu í málinu og til að gera tilboðið.
    Ég dreg þess vegna þá ályktun, hæstv. forseti, að það hafi vísvitandi verið haldið þannig á málum að það var útilokað fyrir aðila eins og Akureyri að gera tilboð í þetta fyrirtæki.
    Auk þess er það svo þannig, hæstv. forseti, þegar maður les þessa skýrslu nokkuð grannt að á fjórum stöðum er sýnt fram á það að reglur hafa verið brotnar, eðlilegar og venjulegar reglur. T.d. er á bls. 18 vitnað í fundargerð framkvæmdanefndar um einkavæðingu. Á bls. 21 er einnig fjallað um þessi mál sérstaklega úr fundargerð framkvæmdanefndar um einkavæðingu þar sem talað er um allt of mikil afskipti söluhóps af málinu sem gæti leitt til vandræða o.s.frv. Á bls. 44 er fjallað um reglur sem í gildi eru almennt um innkaup ríkisins, þar sem stendur: ,,Frestur til að skila tilboðum skal vera . . .  `` --- hver? --- ,,21 almanaksdagur.`` Þetta eru fjögur atriði í reglum sem ríkið hefur samþykkt og gefið út sem hafa verið brotin.
    Í öðru lagi, hæstv. forseti, er það kannski enn alvarlegra að það er sýnt fram á það með beinum hætti í skýrslu Ríkisendurskoðunar að lög voru brotin. Lög sem voru sett á Alþingi. --- Hvenær? Í fyrra. Fyrir rúmlega einu ári, þ.e. 1. mgr. 15. gr. laga nr. 9/1993.
    Í þriðja lagi er það ljóst að jafnvægis og jafnræðis á milli aðila er ekki gætt. Reglum er hagað eins og raun ber vitni um til að útiloka aðila eins og Akureyri. Þess vegna er það mín skoðun að það átti að auglýsa aftur og setja nýja fresti og það eru afglöp hjá ríkisstjórninni í þessu máli að gera það ekki og standa ekki þannig að málum.
    Í fjórða lagi, hæstv. forseti, liggur það einnig fyrir sem niðurstaða mín eftir þessa umræðu og kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar: Verðið sem niðurstaða varð um að nota í þessu sambandi er bersýnilega vitlaust, að ekki sé talað um þá tölu sem fram kom áðan í máli hv. 4. þm. Norðurl. e. og nú ætla ég að leggja fyrir hæstv. fjmrh. Uppsetning málsins er svona: Verðið var 725 millj. kr. Framlag ríkissjóðs til fyrirtækisins hafði verið 540 millj. kr. Hagnaðurinn sem féll í hlut hinna nýju kaupenda var 65 millj. kr. Kostnaðurinn við einkavæðinguna var 15 millj. kr. Samtals er þarna um að ræða 620 millj. sem er rétt að draga frá verðinu upp á 725 millj. ( Gripið fram í: Staðgreiðsluverð.) Mismunurinn er 105 millj. kr. sem eru greiddar fyrir þetta fyrirtæki sem kostar að endurstofnverði 5.000 millj. kr. samkvæmt tölum sem nefndar hafa verið hér fyrr í dag.
    Ég segi eins og er, hæstv. forseti, er þetta boðlegt? Er það boðlegt að hæstv. sjútvrh. setji málin upp í dag eins og hann gerði, eins og ekkert væri að málinu? Það er ekki rétt af ráðherra að setja hlutina upp þannig.
    Og þá komum við að því sem við þyrftum auðvitað öll að reyna að læra af þessari umræðu. Hvað er það? Það er það sem hv. 1. þm. Vesturl. nefndi fyrr í kvöld. Það þarf að setja skýrar verklagsreglur um sölu ríkisfyrirtækja og helst að binda þær reglur í lögum. Það á ekki að vera þannig að um það komi ævinlega upp flokkspólitískar deilur, liggur mér við að segja, eins og þær eru núna þegar Sjálfstfl. segir, rétt eins og það sé stefna Sjálfstfl., að fresturinn hafi verið hæfilegur, eins og síðasti ræðumaður sagði. Það er í raun og veru meira en lítið bogið við Alþingi Íslendinga og vinnubrögð þar þegar hlutirnir eru settir upp þannig að það hefjast ævinlega flokkspólitískar deilur milli stjórnar og stjórnarandstöðu um sölu ríkisfyrirtækja eða hluta í ríkisfyrirtækjum. Þetta er frumstætt kerfi að þessu leyti sem við búum við. Ég tel þess vegna að það eigi að setja reglur og að binda þær í lög um það hvernig fara að við sölu ríkisfyrirtækja, um frestina, um matið, um greiðslurnar, um alla þessa hluti lið fyrir lið. Þar á ekki að vera neitt hér um bil og kannski eða hér um bil nokkurn veginn.
    Við hljótum að spyrja okkur að því, hæstv. forseti: Hver er það svo sem ber ábyrgð á þessu máli? Þjóðin spyr að því. Þjóðin segir: Alþingismenn standa þarna langtímum saman og ræða þessi mál eins og eðlilegt er en hver ber ábyrgðina og hver axlar ábyrgðina? Er um það að ræða að þetta fyrirtæki hafi verið selt þannig að ríkið hafi tapað mörgum hundruðum milljónum kr. Hver ber ábyrgðina? Hinn formlegi ábyrgðaraðili er ráðherrann, sjútvrh. Það er náttúrlega býsna sérkennilegt að vera með stjórnkerfi sem er svo ófullkomið og frumstætt, rétt eins og í svörtustu Afríku, svo ég vindi mér þangað, að úrslitamatið í þessu máli --- á hvern er það lagt? Er það einhver fagnefnd? Dómnefnd? Matsnefnd? Nei, það er lagt á ráðherrann. Eða eins og hv. 1. þm. Vesturl. sagði fyrr í kvöld sem er setning dagsins að mínu mati: ,,Ráðherra tekur á sig fulla ábyrgð á því mati að Haraldur hefði ekki bolmagn til að kaupa fyrirtækið.`` --- Ráðherrann mat það svo. Ég segi alveg eins og er, hæstv. forseti, stjórnkerfi sem er svo frumstætt að það er ætlast til þess af okkar ráðherrum að þeir hafi vit á málum af þessu tagi í einstökum atriðum er stjórnkerfi sem þarf að breyta.
    Ég tel þess vegna fulla ástæðu til þess að menn sameinist um það að reyna að læra af því sem hér hefur gerst. Hér hafa átt sér stað alvarleg mistök. Ríkisendurskoðun stendur jafnrétt eftir alla þessa umræðu með sínar athugasemdir og gagnathugasemdir. Menn eiga að sameinast um að læra af þessari umræðu en ekki að hrista sig með kokhreysti eins og mér finnst því miður að hæstv. sjútvrh. hafi einvörðungu gert hér í dag.