Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 00:11:18 (7035)


[00:11]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það getur vel verið að mér förlist og ég taki ekki vel eftir og muni ekki hluti mjög vel, en ég man þó ekki betur en Sigurður Þórðarson hafi verið ráðinn af forsætisnefnd Alþingis sem ríkisendurskoðandi eftir að Halldór V. Sigurðsson hætti og þótt ( ÓÞÞ: Hvar er sú nefnd í pólitík?) Sjálfstfl. sé sterkur og stór þá er það svo að forsætisnefndin komst einróma að niðurstöðu um það, ef ég veit rétt, að ráða Sigurð Þórðarson, þann ágæta mann sem hv. þm. er að reyna að láta líta svo út að ég sé að gera lítið úr. Ég kannast ekki við það að fulltrúar annarra flokka en Sjálfstfl. hafi gert ágreining um það í forsætisnefndinni að Sigurður Þórðarson væri ráðinn. Ég kannast ekki við það. Það eru því tómar dylgjur að halda því fram að Sjálfstfl. hafi ráðið mann sem forsætisnefnd Alþingis réð að því er ég best veit samhljóða. ( ÓÞÞ: Það er ekki forsætisnefnd sem ræður heldur forseti þingsins.)