Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 00:27:26 (7039)


[00:27]
     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara að ræða hér um innanbúðarmál Eimskipafélagsins við hluthafa Eimskips hf. ( GHelg: Ég er ekki hluthafi Eimskips.) En ég vil vekja athygli á því að í upptalningu minni áðan er um að ræða býsna marga lífeyrissjóði, fulltrúa fólksins í landinu, sjálfstæða útgerðarmenn og starfsmenn SR-mjöls sem eiga verulegan hlut í fyrirtækinu. Og þessi upptalning í skýrslu hæstv. sjútvrh. sannar einfaldlega það að hér er um að ræða mjög dreifða eignaraðild. Það vita allir sem hafa fylgst með þessum bransa að það var einmitt meining útgerðarmannanna sem standa nú m.a. að kaupum þessa fyrirtækis að tryggja það að þetta fyrirtæki yrði ekki markaðsráðandi. Menn vildu koma í veg fyrir það að eigendur loðnuverksmiðja annars staðar á landinu eignuðust þetta fyrirtæki og kæmu þannig í veg fyrir eðlilega verðsamkeppni. Ég fullyrði það að einmitt sú staðreynd að loðnuútgerðirnar í landinu komu með svona virkum hætti inn í kaupin á SR-mjöli hf. núna gerir það að verkum að það verði um að ræða virka verðsamkeppni á þessum markaði því að það er fyrst og fremst hagsmunir útgerðarmannanna, miklu stærri hagsmunir útgerðarmannanna, að tryggja að um eðlilega verðmyndun á þessum markaði verði að ræða til þess að rekstrargrundvöllur þeirra eigin skipa verði með eðlilegum hætti.
    Þess vegna held ég að það sé röng niðurstaða sem hv. þm. dregur af sínum málflutningi og dregur af þeim gögnum sem fyrir okkur hafa verið lögð á síðustu dögum að hér sé um að ræða dæmi um einkavæðingu sem hafi leitt til valdasamþjöppunar. Ég held að einmitt hið gagnstæða sé að líta dagsins ljós með þeirri einkavæðingu sem við erum að ræða um.