Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

148. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 01:35:50 (7058)


[01:35]
     Árni M. Mathiesen (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Ég hefði talið að það færi vel á því að við héldum örlítið áfram með umfjöllun 7. dagskrármálsins og reyndum að klára þá umræðu. Það hefur náðst mjög breið samstaða um það mál í nefndinni. Það hafa orðið deilur um örfá atriði en til þess að greiða fyrir afgreiðslu málsins hefur annars vegar verið dregin til baka tillaga á þskj. 1055 og hins vegar hefur verið lögð fram önnur brtt. frá formanni nefndarinnar á þskj. 1166. Ég átti von á því að hvort tveggja þetta yrði til þess að liðka fyrir afgreiðslu málsins og að við ættum ekki að þurfa að hafa mjög langar umræður þótt ég vilji auðvitað ekki að málfrelsi þingmanna sé skert á nokkurn hátt. En ég vísa til þess að það hefur verið góð samstaða um málið og þessar aðgerðir ættu einmitt að styrkja þá samstöðu þannig að við ættum að geta afgreitt málið á tiltölulega stuttum tíma.