Stjórn fiskveiða

149. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 15:27:57 (7113)


[15:27]
     Frsm. meiri hluta sjútvn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Varðandi krókaleyfisbátana og það þak sem sett er á heildaraflamark krókaleyfisbáta og þá staðreynd að þeir munu sækja stífar eftir að þessum reglum hefur verið breytt þá hygg ég að ekki sé ástæða til að fjölga meira í þeim hópi.
    Það er að nást hér söguleg sátt í sambandi við þetta mál við sjómenn landsins eftir að þeir fóru í tveggja vikna verkfall eftir áramótin. Sú sátt styrkir mjög þetta kvótakerfi. Það er líka verið að samþykkja á því vissar breytingar til að koma til móts við þá sem viðhalda í grundvallaratriðum hagkvæmni kerfisins en kemur í veg fyrir að það sé misnotað til að halda niðri þeirra launum.
    Þingmaðurinn telur sig mæla fyrir munn þjóðarinnar þegar hann talar um að kvótakerfið geti ekki staðist í þeirri mynd sem það er. En ég tel að þingmaðurinn sé svona álíka nálægt vilja þjóðarinnar í því tilviki og Þjóðviljinn sálugi var nálægt vilja þjóðarinnar í sínum skrifum oft á tíðum.