Stjórn fiskveiða

149. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 17:55:28 (7140)


[17:55]
     Frsm. meiri hluta sjútvn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það skiptir afar miklu máli þegar rætt er um þær leikreglur sem gilda um stjórn fiskveiða að um þær sé sátt. Hv. þm. virðist líta svo á að verkfall sjómanna skipti engu máli, þetta hafi allt saman verið hreinn misskilningur og þeir hafi ekki verið að berjast fyrir sínum hagsmunum í verkfallinu. Ég hef ekki haldið að þetta væri svo og sjómenn almennt teldu að sjómannaforustan héldi á spilum í samræmi við sína hagsmuni. Ég tel þess vegna mikilvægt að um kerfið ríki sátt við sjómenn. Ég tel ekki að verið sé að gera neinar slíkar breytingar á kerfinu sem slíku eins og það er í dag að það breyti eðli þess hvað hagkvæmni snertir. Hins vegar er það ljóst að það að taka út fiskvinnslukvótann, sem hefði þýtt aukna hagkvæmni miðað við kerfið sem er í dag, var mjög sárt og þungbært fyrir mig að missa það út.