Stjórn fiskveiða

149. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 18:02:18 (7145)


[18:02]
     Finnur Ingólfsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég er hræddur um að það sé dálítið oftúlkað hjá hv. 1. þm. Vesturl. að hér sé um einhvern nýjan talsmann Framsfl. í sjávarútvegsmálum að ræða. Sá er til staðar og hefur verið það lengi. Það hefur verið hv. 1. þm. Austurl., Halldór Ásgrímsson, og svo sá sem er með honum í hv. sjútvn., hv. þm. Stefán Guðmundsson. Þetta eru talsmenn Framsfl. í þessum málaflokki.
    En það geta fleiri tekið þátt í þessari umræðu vegna þess að hér er umræða sem skiptir höfuðmáli fyrir þjóðina. Og hvað er boðað? Hvað eru framsóknarmenn að boða? Framsóknarmenn eru að boða það, hv. þm., að koma í veg fyrir stórslys, að koma í veg fyrir það að yfir sjávarútveginn verði ýtt óhagræðingu, koma í veg fyrir að hér verði innleitt aukið atvinnuleysi hjá verkafólki í fiskvinnslu og sjómönnum. Það er þetta sem Framsfl. er núna að boða þegar hann ætlar að berjast gegn þeim breytingum sem ríkisstjórnin er að leggja til á frv. um stjórn fiskveiða.