Stjórn fiskveiða

149. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 18:27:58 (7152)


[18:27]
     Frsm. 2. minni hluta sjútvn. (Stefán Guðmundsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil eins og sá sem talaði á undan mér þakka hv. þm. Petrínu Baldursdóttur fyrir ágæta ræðu. Ég er henni sammála á margan hátt. Ég hef sagt það trekk í trekk, og ítrekað verið spurður vegna þess að af einhverjum ástæðum ligg ég undir grun um að vera talsmaður fiskvinnslukvóta en það hef ég aldrei verið, að við þyrftum að byggja fiskvinnsluna upp á annan hátt í landi en að koma á fiskvinnslukvóta. Við erum því sammála í þessu máli.
    Ég vil einnig taka undir það sem hv. þm. sagði um 8. gr. Þar er meginágreiningur okkar. En ef ég skildi þingmanninn rétt þá eigum við líka samleið þar, hún og við framsóknarmenn. Það er einmitt við 8. gr. Ég sé að henni fellur það ekki vel í geð að eiga samleið með okkur framsóknarmönnum en engu að síður er það samt svo. Það er einmitt við 8. gr. --- ( PBald: Sástu ekki að ég brosti?) --- jú, ég sá það --- (Forseti hringir.) sem við erum að gera brtt. við til þess að reyna, þingmaður góður, að finna sáttaleið út úr þessum vanda sem við erum komnir í. Þess vegna höfum við lagt fram brtt. við 8. gr. frv. Ég fagna því að við skulum eiga þarna talsmann í þeim efnum.
    En að lokum vil ég segja það líka við hv. þm. að við höfum fengið margar heimsóknir og bréf frá Suðurnesjabúum. Mér er það í minni þegar ég spurði fulltrúa þeirra Suðurnesjamanna sem komu á fund okkar hvernig hann teldi, ef þetta frv. næði fram að ganga, að útgerð á Suðurnesjum mundi líta út. Hvort hann vildi segja mér það. Hann sagði: Já, ég skal segja ykkur það í stuttu máli. Verði þetta samþykkt þá mun þetta rústa útgerð á Suðurnesjum. Auðvitað fellur einyrkjaútgerðin. Það er ljóst. (Forseti hringir.)
    Ég hefði vissulega viljað víkja að útflutningi á ferskum fiski sem þingmaðurinn vék að. Þar fannst mér hún eiga samleið með hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni en ég mun gera það í kvöld, eða nótt eða í fyrramálið. Ég á margt vantalað við hv. þm. Guðmund Hallvarðsson.