Stjórn fiskveiða

149. fundur
Miðvikudaginn 04. maí 1994, kl. 01:43:08 (7214)


[01:43]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það var fróðlegt að heyra hv. þm. afneita því fylgiskjali sem fylgdi tillögu flokksins á síðasta ári. Hv. þm. fór yfir það sem þingmaðurinn hefur sett fram, bæði í ræðu og riti um þetta mál. Þá vil ég minna hv. þm. á það að einhverjum vikum eða mánuðum, nú man ég ekki alveg tímasetningarnar, eftir að Alþb. lagði fram þáltill. sína með fylgiskjalinu, frv., þá kynnti hv. þm. þá stefnu sem sína á fundi um sjávarútvegsmál sem Háskólinn á Akureyri efndi til og hv. þm. var bæði með framsögu og sat fyrir í panelumræðum. ( SJS: Tillagan var flutt á eftir ráðstefnunni.) Ef þetta var rangminni og tillagan flutt á eftir ráðstefnunni þá kemur nú heldur betur í ljós að hv. þm. hefur verið guðfaðir þessa tillöguflutnings sem hann var að afneita í ræðustól fyrir nokkrum mínútum.