Tollalög

150. fundur
Miðvikudaginn 04. maí 1994, kl. 14:06:52 (7244)


[14:06]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég tek það fram að ég tala ekki fyrir hönd Vatíkansins enda ekki kaþólskari en páfinn en utanrrh. er ekki viðstaddur. Þar sem umræðan hefur nokkuð farið út í það að ræða um skipasmíðaiðnaðinn og hv. þm. ræddi um nokkur mikilvæg atriði sem snerta skipasmíðaiðnaðinn þá vildi ég, af því að hann hafði áhyggjur af því að stjórnvöld sinntu ekki þessum iðnaði nægilega mikið, láta það koma fram, þó ekki væri nema umræðunnar vegna, að stjórnvöld hafa beygt sig fyrir því að bæði Fiskveiðasjóður og Iðnlánasjóður hafa lagað sínar lánareglur meira en var vegna þarfa innanlandsiðnaðarins. Ég tel það mjög til bóta og vil að það komi fram við þessa umræðu að þar hefur orðið breyting á vegna þess að stjórnvöld beittu sér fyrir breytingum á reglugerðum þessara sjóða.
    Ég vil jafnframt, þó að það séu ekki nein andmæli heldur kannski þvert á móti, lýsa því yfir að ég er sammála hv. þm., formanni iðnn., að það þarf að horfa á þessa grein í heilu lagi og aðgerðir þurfa að miðast við að styrkja stöðu hennar. Þar kemur kannski tvennt að auki til greina. Það er í fyrsta lagi að sameina kraftana og auka samvinnu, kannski ekki síst á Faxaflóasvæðinu, og hitt að efna ekki til nýrra fjárfestinga á kostnað ríkisins sem gera það eitt að toga verkefni frá öðrum innlendum aðilum og færa til annarra fyrir nýjan aukinn kostnað.