Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumr.)

151. fundur
Miðvikudaginn 04. maí 1994, kl. 23:14:43 (7272)


[23:14]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Góðir tilheyrendur. Hvort okkur tekst að hagnýta þá möguleika sem þjóðin á er undir því komið hvort það tekst að koma ríkisstjórninni frá. Það er meginstaðreyndin sem þjóðin öll gerir sér grein fyrir. Og það eru tíðindin sem blasa við eftir þennan vetur. Tíðindin sem blasa við eftir þetta kvöld eru ummæli hins nýja formanns Framsfl., sem ástæða er til að óska velfarnaðar í starfi, en hann útilokaði ekki í ræðu sinni hugsanlega aðild að Evrópubandalaginu hér fyrr í kvöld, enda hefur honum verið klappað á axlirnar þegar af þremur ræðumönnum frá Alþfl. og Sjálfstfl. Ég óska Framsfl. því miður ekki til hamingju með þessar heillaóskir sem hinum nýja formanni hafa birst frá þessum þremur ræðumönnum.
    Í sumar ætlar þjóðin að koma saman á Þingvöllum, hún ætlar að fagna 50 ára afmæli íslenska lýðveldisins. Hvað verður þar lagt fyrir? Það liggur ekki enn þá fyrir af hálfu Alþingis hvað það verður því Sjálfstfl. hefur lagst gegn því að stjórnarskrármálið verði tekið fyrir, mannréttindakafli stjórnarskrárinnar. Kannski Sjálfstfl. og stjórnarherrarnir ætli á Þingvöllum að fara yfir atvinnuleysislistann. Því einu sögulegu afrek þessarar ríkisstjórnar eru þau að nú eru 9.000 Íslendingar atvinnulausir. Aldrei fleiri í sögu lýðveldisins. Og réttnefni ríkisstjórnarinnar er atvinnuleysisstjórn Davíðs Oddssonar. Því staðan er núna þannig að 17% unglinga á aldrinum 16--19 ára eru atvinnulausir á Íslandi í dag. Þetta er árangurinn sem forsrh. var að stæra sig af hérna áðan. Eða hvað?
    Stjórnarherrarnir hafa haldið því fram að staðan sé svona vegna þess að það séu ekki til peningar. Það er rangt. Það hefur verið afhjúpað síðustu daga að fyrirtækin eru að skila ársreikningum með stórfelldum hagnaði, gróða sem er margfaldur á við það sem var t.d. á árinu 1992. Ætla þeir stjórnarherrarnir kannski að gera grein fyrir árangri sínum í bitlingamálunum á Þingvöllum? Hvernig þeim hefur tekist að koma tveimur þingmönnum á þessum vetri í Seðlabankann? Ætlar Alþfl. að halda því fram að það sé í þágu jafnaðarstefnunnar? Það er erfitt. Bitlingarappið er söngur Alþfl. Þjáðir menn á þúsund heimilum á Íslandi finna ekki lengur vonina í Alþfl. Á Þingvöllum munu margir tala, fleiri en stjórnarherrarnir. Vonandi flytur formaður Framsfl. þar ekki þann boðskap sem hann flutti okkur fyrr í kvöld.
    Við alþýðubandalagsmenn höfnum þeirri hagfræði eymdarinnar sem virðist hafa heltekið fjölda stjórnmálamanna á seinni tíð. Það væri minna atvinnuleysi á Íslandi í dag ef við hefðum haft aðra ríkisstjórn sem hefði gripið fyrr í taumana, miklu minna atvinnuleysi. Við höfum sýnt fram á leiðir til þess að tryggja störf 2.000 manna í viðbót á tiltölulega skömmum tíma. Við bendum á það að með átaki í skipasmíðaiðnaði má tryggja um 1.000 ný störf. Og við segjum: Með samstarfi ríkis og sveitarfélaga, atvinnurekenda og verkalýðsfélaga er hægt að rjúfa þann vítahring vonleysis sem hefur gripið um sig á þúsundum íslenskra alþýðuheimila um þessar mundir. Á þessu ári fjölskyldunnar þegar hagur fjölskyldnanna er með þeim hætti sem margir þekkja þannig að það hefur mjög þrengt að öllum fjölskyldum á Íslandi nema fjölskyldunum fjórtán. Þær sýna betri hag núna en nokkur sinni fyrr undir forustu Alþfl. og Sjálfstfl. Til hamingju með fjölskyldurnar fjórtán.
    Við alþýðubandalagsmenn höfum bent á þessa möguleika og við munum halda áfram að boða bjartsýni, benda á það að íslenska þjóðin þarf ekki að sætta sig við atvinnuleysi. Hún getur reist sig og rifið upp úr þessum erfiðleikum með samstöðu. Í sumar skundum við á Þingvöll og treystum vor heit. Við þurfum ný pólitísk markmið, framtíðarsýn. Markmiðin eiga að vera: Atvinnuöryggi og traustara sjálfstæði íslensku þjóðarinnar. Aðferðin er róttæk jafnaðarstefna. Við skundum á Þingvöll og strengjum þess heit að afsala ekki sjálfsforræði íslensku þjóðarinnar með því að ganga í Evrópusambandið. Við skulum treysta efnahagslegt og menningarlegt sjálfstæði þjóðarinnar.
    Við þurfum stjórnvöld á Íslandi sem þora, sem hafa kjark til að framkvæma nýja stefnu, öðruvísi stefnu. Við þurfum ekki miðjuleiðtoga sem kikna í hnjánum í hvert skipti sem íhaldið klappar þeim vinsamlega á axlirnar. Við þurfum stjórnvöld sem þora að skattleggja fjármagnsgróðann því peningarnir eru til. Við þurfum stjórnvöld sem þora að skattleggja hátekjur. Við þurfum stjórnvöld sem þora að reisa við íslenskt atvinnulíf eins og skipasmíðaiðnaðinn. Við þurfum stjórnvöld sem þora að tala máli félagslegrar þjónustu, velferðarkerfisins, skólanna, aldraðra, heilbrigðisþjónustunnar. Við þurfum fólk sem þorir að breyta. Það er niðurstaðan, góðir hlustendur.