Lyfjalög

152. fundur
Fimmtudaginn 05. maí 1994, kl. 14:22:12 (7299)


[14:22]
     Guðmundur Bjarnason :
    Virðulegur forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu mjög enda búið nú þegar að tala allítarlega um málið og fara yfir flesta efnisþætti. Þegar þetta mál var síðast til umræðu var sá tónn í hæstv. ráðherra að hugsanlegt væri að ná einhverju samkomulagi um málið sem aðilar gætu sæst á og þyrfti ekki að tefja framgang þess. En það voru aðeins örfá atriði sem mig langaði til að ræða nánar og fá svör við hjá hæstv. ráðherra.
    Ég beindi því m.a. til hans fyrr í umræðunni að þær breytingar sem þarf út af fyrir sig að ná fram og eiga að vera grunntónninn í frv. séu að lækka heildarkostnað við lyfjaneysluna hjá okkur, ná heildarverðinu niður og spara fyrir þjóðina í heild. Þá er ég að tala um að það er ekki nóg að velta kostnaði ríkisins yfir á einstaklinginn eða neytendurna. Þetta höfum við rætt oft áður og þegar ég átti sæti í þeim stóli sem hæstv. heilbrrh. skipar nú reyndum við mjög að leita leiða til þess að lækka heildarkostnaðinn án þess að velta byrðunum til á þennan hátt og eitt af því sem gert var var að lækka umtalsvert álagninu á lyf. Nú er ég ekki að segja að hún sé ekki enn þá óþarflega há og það megi ekki gera enn betur og ná kostnaðinum niður á því sviði. Ef ég man rétt var álagning í smásölu um eða yfir 70% þegar ég kom í heilbrrn. Þegar ríkisstjórnarskiptin urðu þá var álagningin komin í 60%, um eða niður fyrir 60%. Þar hygg ég að hafi verið a.m.k. 10% lækkun í álagningu og í heildsölunni voru tölurnar 17% í upphafi en 13,5% þegar ríkisstjórnarskiptin urðu.
    Nú heyrði ég það á dögunum að hæstv. ráðherra greindi frá því að það hefði enn orðið lækkun á álagningu. Ég verð leiðréttur ef ég fer rangt með að það hafi verið 0,5% og í því sambandi hafa verið nefndar 50 millj. kr. sem sparnaður. Ég bað hæstv. ráðherra eða hv. formann heilbr.- og trn., hv. 5. þm. Austurl., að athuga ef þetta væru réttar tölur og réttar upplýsingar hver sparnaðurinn hefði verið í tíð fyrrv. ríkisstjórnar bara af þessari einu aðgerð, þ.e. lækkun álagningar.
    Ég talaði um það líka að vafalaust væri hægt að ná niður kostnaði með ýmsu móti án þess að bylta kerfinu en ég vil undirstrika það af því að ég skrifaði það niður eftir hæstv. ráðherra í umræðunum um daginn að hann sagði að þingmenn sem hefðu talað hefðu lýst því yfir hver eftir annan að þeir vildu viðhalda þessu kerfi. Í sjálfu sér vil ég

undirstrika það, a.m.k. fyrir mína parta að það er ekkert í þessu kerfi sem ég vil endilega halda í annað en það að þjónustan sé tryggð og þjónustan sé hluti af heilbrigðiskerfinu. Ekki, og ég undirstrika það þá líka, að breytingin væri á þann veg og hún mætti ekki verða á þann veg að þetta væri fyrst og fremst gert að markaðsmáli á þann hátt að það væri ekki gætt fyllsta öryggis, það væri ekki tryggt að allir nytu sömu þjónustu og það væri ekki tryggt að menn byggju við sana verð. Það er það sem ég vil hafa tryggt í breytingunum þegar breytingarnar verða framkvæmdar en fráleitt að ég segi og vil heldur ekki láta segja það um mig að ég sé endilega einhver varðhundur fyrir gildandi kerfi. Það vil ég undirstrika, virðulegur forseti, og vona að hæstv. ráðherra taki alvarlega það sem ég segi í því efni og geri mér ekki upp skoðanir um eitthvað allt annað en ég hef sagt.
    Það eru þessir þættir að þetta er hluti af heilbrigðisþjónustunni, þetta er veigamikill þáttur sem við verðum að geta tryggt að neytendur sem eru, við getum kannski sagt svo ólánssamir að þurfa að nota þessa þjónustu eigi aðgang að þjónustunni á eðlilegan hátt og þeir borgi sama verð fyrir hana hvar sem þeir búa. Að þetta sé ekki markaðsvætt á þann hátt að þessi sjónarmið öll séu borin fyrir borð.
    Þetta voru þættirnir sem ég vildi undirstrika og vil að hæstv. ráðherra taki tillit til þegar hann a.m.k. kemur hér í ræðustól og gerir öðrum upp skoðanir og eins að í hinni almennu umræðu sé alveg ljóst hver mín skoðun er á þessu máli.
    Fleira kom fram í umræðunni, virðulegi forseti, á dögunum sem e.t.v. væri ástæða til að rifja örlítið upp en það vill nú fara svo að þegar langur tími líður milli umræðna eða umræðan er slitin í sundur með þeim hætti sem nú gerðist þá fyrnist kannski yfir eitthvað af því nema en menn gefi sér tíma til að setjast niður yfir það og rifja það aftur upp. Eitt af því sem hæstv. ráðherra sagði t.d. og fullyrti, öfugt við það sem er gert í þeim umsögnum sem hv. heilbr.- og trn. hafa borist um málið, var að kostnaðurinn mundi lækka, verðið mundi lækka, álagningin og kostnaðurinn og því gætum við treyst. Mér finnst út af fyrir sig gott ef hann er svo sannfærður í sinni sinni skoðun á ágæti málsins eins og það liggur fyrir, en ég fann ekki að það kæmi fram hjá honum neitt sem beinlínis bendir til að svo sé, enda andstætt því sem allar umsagnir segja, annað en bara hans fróma ósk, hans góði vilji og hans trú á því að kostnaður minnki. Það var ekkert sem sannfærði mig um að þessi fullyrðing hans stæðist. Síðan skrifaði ég eftir honum að við ættum að láta á þetta reyna því reynslan væri ólygnust. Gott og vel um það. En það er þá eins gott að sú reynsla verði á þann veg sem hann lýsir en ekki á þann veg sem umsagnirnar lýsa. Ég óttast það nokkuð, virðulegur forseti, að það kunni að vera að reynslan í þessu tilfelli geti orðið okkur nokkuð dýrkeypt. Þó reynslan sé mikilvæg og kenni mönnum oft þá er hún ekki alltaf ókeypis. Því miður getur það stundum verið svo að hún sé okkur dýrkeypt.
    Annað var það sem hæstv. ráðherra fullyrti í umræðunni og mig langar aðeins að fá nánar upplýst hjá honum ef hann getur í stuttu máli ítrekað það sem hann sagði. Það er sú fullyrðing hans að þetta mundi leiða til lægra verðs og minni kostnaðar fyrir þjóðarbúið í heild, vonandi, ekki bara fyrir ríkiskassann. Það er hægt að beita allt öðrum aðferðum við að draga úr kostnaði fyrir ríkiskassann sem er allt annað mál en það að ná kostnaði niður í heild sinni sem er það sem skiptir máli. Það var sú fullyrðing hæstv. ráðherra að hámarksverð tryggði það að ekki yrði um tvenns konar verð að ræða. Ég sé alls ekki hvernig þetta getur verið, a.m.k. átta ég mig alls ekki á því hvernig hann ætlar á hinn bóginn að rökstyðja það að þetta leiði til lægri kostnaðar ef hámarksverðið á að tryggja að ekki verði um tvöfalt verði að ræða. Hann reiknar þá ábyggilega með því að hámarksverðið verði alls staðar notað, þ.e. allir sem selja lyf bindi sig við þetta hámarksverð. Það er það eina sem getur tryggt það að ekki verði um tvenns konar verð að ræða í landinu. Hvernig á þá kostnaðurinn að nást niður við þessa breytingu ef það er hámarksverðið sem á að gilda öðruvísi en að hæstv. ráðherra ætli að knýja það umtalsvert niður og gera síðan ráð fyrir því að það eitt og sér geti ráðið úrslitum? Til þess þarf í raun ekki að bylta kerfinu eins og hér er boðað, að hleypa markaðinum að því á þann hátt sem hér er hugsað og virðist vera inntakið í þessum breytingum. Ef það er hámarksverðið sem á síðan að gilda og tryggja eitt verð fyrir alla neytendur þá finn ég ekki samhengið í þessu og bið

hæstv. ráðherra aðeins að útskýra það fyrir okkur frekar. --- Þó að ég sjái að hann er í síma í hliðarherbergi eins og er þá vænti ég þess að þessi fyrirspurn komist til hans.
    Ég vil taka undir það sem kom fram í ræðu hæstv. ráðherra og er einhvers staðar nefnt í greinargerðum með frv., að það er mikilvægt að finna farveg fyrir lyfjafræðinga til þess að nýta betur sína menntun og veita betri þjónustu á sviði þessa þáttar heilbrigðisþjónustunnar. Ég átti viðræður um þennan þátt við lyfjafræðinga á meðan ég sat í heilbrrn. og ég tel að það sé vissulega þörf á að leita leiða til þess að lyfjaverslanirnar séu á betri hátt en nú hluti af heilbrigðisþjónustunni og veiti almennar upplýsingar og fróðleik um lyfjaneyslu og lyfjameðferð, um aukaverkanir o.fl. af þeirri margvíslegu þekkingu sem lyfjafræðingarnir búa yfir og geta beint til neytandans og út af fyrir sig líka á þann hátt lækkað kostnaðinn eða dregið úr þjónustunni. En ég sé ekki heldur hvernig sú aðferð sem hér er verið að boða getur nýtt betur þennan starfskraft en verið hefur.
    Ég var að tala um, hæstv. ráðherra, hugmyndirnar, sem ég get út af fyrir sig verið sammála, um að það væri mikilvægt að nýta betur menntun og þekkingu lyfjafræðinga í þágu heilsbrigðisþjónustunnar í landinu. En ég sé ekki að sú tillaga sem hér er borin fram nái þeim markmiðum. Ég leyfi mér að vitna til bréfs sem hv. nefnd barst frá lyfjafræði lyfsala við Háskóla Íslands, undirritað af Þórdísi Kristmundsdóttur prófessor, þar sem spurt er um það hvort ekki megi einmitt ímynda sér að apótek með þessu formi sem hér er boðað verði flest svo lítil að þau beri ekki nema einn lyfjafræðimenntaðan starfsmann og gæti það jafnframt orðið eini starfsmaðurinn sem ætlað er að sinna lyfjafræðilegri þjónustu að einhverju marki í viðkomandi lyfjaverslun þannig að þessi þjónusta er alls ekki tryggð. Ég sé það ekki heldur er kannski þvert á móti verr fyrir henni séð með hinu nýja formi ef það verður að raunveruleika en er í dag.
    Ég endurtek og ítreka það, hæstv. forseti, að mér finnst margt enn óljóst í málinu og hefði þess vegna talið skynsamlegt að skoða það betur. Nú er mér ekki alveg ljóst hvort hæstv. ráðherra hefur kannski í umræðum í dag gefið einhverjar yfirlýsingar um að málið verði skoðað nánar í nefnd eða starfshópi áður en það tekur gildi að fullu. Ef svo er þá fagna ég því. Ef það kynni að vera í farvatninu einhver slík hugmynd þá hygg ég líka að hún mundi leiða til þess að um þetta mál næðist frekari sátt.
    Að lokum langar mig til þess að lýsa undrun minni á því, virðulegi forseti, hversu fáir fulltrúar hins stjórnarflokksins ef nokkur hafa tekið þátt í þessari mikilvægu umræðu hér, þessari gerbreytingu á lyfjaverslun og lyfjadreifingu í landinu þrátt fyrir það að hér í göngum og í gluggaskotum, eins og stundum er sagt, er fullyrt að það sé ekki mikil ánægja með frv. í röðum þeirra hv. þm. en ég ætla ekki að öðru leyti að gera þeim upp skoðanir.