Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

152. fundur
Fimmtudaginn 05. maí 1994, kl. 15:13:17 (7302)


[15:13]
     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir var lagt fram fyrst fyrir tveim árum, að mig minnir, af þáv. hæstv. umhvrh., Eiði Guðnasyni, og var þá mjög gagnrýnt og gerðar mjög verulegar athugasemdir við málið sem varð til þess að það kom ekki aftur út úr virðulegri umhvn. Enda muna þeir það gerla sem muna umræðuna sem þá fór fram að þáv. formaður virðulegrar umhvn., hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson, gerði mjög verulegar athugasemdir við frv. og taldi að ólíklegt væri að það næði afgreiðslu á því þingi. Málið var síðan endurflutt á síðasta þingi en náði ekki fram að ganga og er nú enn á ný komið hér inn. Og enn á ný eru verulegar athugasemdir við málið. Til marks um það má benda á afgreiðslu nefndarinnar, sem mér skilst að hafi unnið mikið í málinu, fundað mikið á mörgum og ströngum fundum og fengið til sín marga aðila til umsagnar, en engu að síður gerist það sem hlýtur að teljast sögulegt og merkilegt, svo að ég noti orð annars hv. þm. sem mjög gjarnan notar þessi orð, að af níu nefndarmönnum er fyrirvarinn ekki hjá einum eða tveim eða þremur eða fjórum heldur er hver einasti nefndarmaður með fyrirvara við málið.
    Ég hef reynt að sitja við þessa umræðu og hlusta á hana eins og kostur er og beðið eftir að heyra rökin fyrir hinum ýmsu fyrirvörum en það hefur skort töluvert á að fyrir þeim hafi verið gerð grein. Ég man ekki eftir því þau sjö ár sem ég hef verið á þingi að nefnd hafi skilað máli frá sér á þann hátt sem hv. umhvn. hefur gert.
    Það kannski segir meiri sögu um málið en margt annað að það er auðvitað ágreiningur um það í umhvn. sem kemur fram í þessum fyrirvörum öllum sem slá sennilega öll þingmet. Það væri fróðlegt að fá að hlýða á mál þeirra sem eru með fyrirvara. Nokkrir hafa flutt sitt mál en aðrir hafa ekki gert það. Ég tel mjög gagnlegt fyrir þá sem eiga um

þetta mál að fjalla að fá að heyra þá fyrirvara og þau rök sem fram eru færð fyrir fyrirvörunum.
    Ég hef ýmsar athugasemdir við þetta frv. Ég vil fyrst segja það að sem frekari stuðningur við þær skiptu skoðunum sem virðast vera innan virðulegrar umhvn. þá er hér heill bunki af breytingartillögum. Frv. eru einar 22 greinar en síðast þegar ég taldi voru komnar fram 33 brtt. Ég segi síðast þegar ég taldi vegna þess að síðan þá hafa komið fram fleiri breytingartillögur og breytingartillögur við breytingartillögur þannig að það mætti segja mér að það sé farið að nálgast eitthvað fimmta tuginn af breytingartillögum á frv. sem er aðeins 22 greinar. Þess vegna þykir mér alveg einsýnt að ágreiningur um málið er það mikill að það á auðvitað að fara aftur til nefndar og skoðast betur og það á að geyma málið til næsta þings og stefna að því að klára það á haustþinginu í sátt og samlyndi við alla. Þetta er ekki slíkt mál að það þurfi að vera á einhverjum forgangslista eða fara með einhverjum sérstökum hraða í gegnum þingið og nýta sér þá tímapressu sem þingið er í þessa dagana. Það gerist ekkert alvarlegt þó að þetta mál bíði til næsta þings. Ég vil því taka undir þann málflutning sem fram hefur komið hjá ýmsum þingmönnum að málið verði látið bíða og unnið frekar í því á næsta þingi.
    Ég sé enga sérstaka þörf fyrir því, virðulegur forseti, eins og ég var að segja að halda málinu áfram og óska reyndar eftir því að það verði látið bíða. Ég verð að segja það eins og er að mér finnst ákaflega erfitt að ræða þetta mál áfram þar sem hæstv. umhvrh. leggur ekki meiri áherslu en svo á þetta mál að hann skreppur til Barbados í eina eða tvær vikur skiljandi eftir mál á forgangslista og krefst þess að það verði keyrt í gegnum þingið. Mér finnst þetta ekki bera vott um að hjá hæstv. ráðherra fylgi hugur máli. Mér þykir afar erfitt, þó að ég beri fulla virðingu fyrir þeim hæstv. ráðherra sem gegnir stöðu umhvrh. þessa dagana, að ræða við hann um þetta mál. Þegar á þeirri forsendu er afar erfitt að ræða málið.
    Ekki bætir úr skák að virðulegur formaður hv. nefndar hefur einnig valið þann kostinn að fara úr landi. Formaður nefndarinnar hefur líka lagt áherslu á að þetta mál verði afgreitt. Ég verð að segja það að ég furða mig á því hvernig menn geta ætlast til þess að mál fari í gegnum þingið þegar helstu málsvarar þess leyfa sér það að sýna málinu jafnmikla lítilsvirðingu og þeir gera í raun og veru. Það er ekki hægt að hlaupa úr landi og skilja bara eftir skilaboð: Þetta frv. á að fara í gegn, undirritað af hæstv. ráðherra og virðulegum formanni nefndarinnar. Mér finnst þetta vinnubrögð sem er ekki hægt að þola og tel því að það ætti að fresta þessari umræðu og bíða eftir því að þessir hv. þm., ráðherra og formaður nefndarinnar, sýni þessu máli tilskilda virðingu og þeir þingmenn sem vilja ræða málið við þá og varpa fram spurningum hafi kost á því. Ég fæ ekki séð að þetta mál hafi það mikilvægi sem hv. þm. og hæstv. ráðherra virðast telja.
    Ég vil því inna hæstv. forseta eftir því hvort ekki sé hægt að fresta umræðu þangað til í það minnsta formaður nefndarinnar sé til staðar, maður gerir ekki stífar kröfur um umhvrh. sjálfan þó að hann ætti auðvitað að vera hér líka. Ég vildi gjarnan fá svar úr forsetastól um afstöðu forseta til þess hvort hægt er að fresta málinu þangað til málsvarar málsins eru viðlátnir.
    ( Forseti (VS) : Forseti er tilbúinn til þess að fresta umræðu um þetta mál um sinn, alla vega. Ég get ekki ákveðið meira að svo stöddu ef hv. þm. vill taka því boði forseta.)
    Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir það. Ég tek því boði og fresta þá ræðu minni.