Stefnumótandi byggðaáætlun 1994--1997

152. fundur
Fimmtudaginn 05. maí 1994, kl. 18:00:04 (7317)


[18:00]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Ég hef því miður ekki haft nægilega góðan tíma til þess að skoða þau nál. og brtt. sem hér liggja fyrir við stefnumótandi byggðaáætlun, en mér sýnist þó í fljótu bragði að hún hafi lítið batnað í meðförum hv. nefndar frá því að við ræddum hana í fyrri umræðu.
    Mér finnst þessi byggðaáætlun vera metnaðarlítil og það vanti í hana þann kraft sem þarf að vera í stefnu stjórnvalda í byggðamálum. Mér finnst líka að brtt. meiri hluta nefndarinnar séu nánast allar til að draga saman til viðbótar frá því sem var þó í áætluninni. Tölurnar hafa lækkað og sumir liðir hafa horfið. Ég vil sérstaklega vekja athygli á því að í áætluninni eins og hún var lögð fram var gert ráð fyrir því að leggja hlutafé í atvinnuþróunarfélög. Það var eitt af því sem ég taldi helst þessari tillögu til gildis að þar væru þó á ferðinni hugmyndir um að styrkja atvinnulífið á landsbyggðinni þó að fjármunirnir sem ætlaðir voru í þetta væru mjög smáir og hefðu ekki gert mjög mikið gagn, eins og lagt var til í tillögunni. En það var þó vísir og það hefði mátt kannski reyna að hækka þær fjárhæðir frá því sem var í tillögunni. Þvert á móti gerist það að þessi liður hverfur og það eru ekki ætlaðir neinir peningar til atvinnuþróunarfélaga með þeim hætti sem var í fyrri tillögunni.
    Ég hef sjálfur tekið þátt í því að stofna og reka atvinnuþróunarsjóð Akraneskaupstaðar og ég hef haft fréttir af slíkum hlutum annars staðar frá og það er nákvæmlega sú aðferð sem hefur gefist einna best við það að reyna að setja einhvern kraft í atvinnulífið úti um landsbyggðina. Ég held að það sé engin önnur betri aðferð til þess að hvetja til nýs atvinnurekstrar heldur en að gera það einmitt í gegnum þessi atvinnuþróunarfélög. Og opinberir aðilar hafa kannski besta möguleika til að gera þessa hluti með eðlilegum hætti þannig að heimamenn beri síðan ábyrgð á því sem gert er í gegnum það að fá hlutafé inn í þessi atvinnuþróunarfélög eins og hugmyndin var. Ég tel nauðsynlegt að það komi fram skýringar á því hvers vegna horfið er frá þessari hugmynd og ég sætti mig illa við að forsvarsmenn þess að það er gert geri grein fyrir sínu máli án þess að það komi fram hvers vegna þessi stefnubreyting hefur orðið.

    Síðan finnst mér líka ástæða til þess að gera kröfu um það að betur sé gerð grein fyrir því hvernig stendur á því að nefndin leggur fram hugmyndir um verulega lægri fjárhæðir til þessara mála heldur en voru í upphaflegu áætluninni og voru þær þó ekki háar og markið ekki mjög hátt sett í þessari stefnumótandi byggðaáætlun eins og ég sagði áðan.
    Mér fannst merkilegt að hlusta á hv. frsm. meiri hluta nefndarinnar þegar hann talaði um það t.d. að það hefði ekki verið möguleiki að koma til móts við tillögur Kvennalistans í þessu máli, ein af röksemdunum sem kom fram var sú að það væru þegar konur starfandi sem atvinnuráðgjafar á landsbyggðinni. Þetta er stórkostlegur rökstuðningur fyrir því að setja ekki peninga í atvinnumál kvenna á landsbyggðinni, að það sé búið að ráða einhverjar konur sem atvinnufulltrúa. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst það ekki bjóðandi að setja slíkt í nál. eins og þetta.
    Ég tel að það sé kannski ekki endilega rétta leiðin sem kemur fram í brtt. 674 að ráða sérstaka atvinnufulltrúa fyrir konur á landsbyggðinni. Ég tel hins vegar að það sé full ástæða til þess að sinna sérstaklega atvinnumálum kvenna en það getur auðvitað sá atvinnufulltrúi gert sem fyrir er á svæðinu, hvort sem hann er kona eða karl. Það á ekki að verða vandamálið. Aðalatriði málsins er auðvitað að það séu tryggðir fjármunir til þess að gera það sem menn ætla sér í þessum málum.
    Ég er meðflm. á brtt. sem Jóna Valgerður Kristjánsdóttir hefur mælt fyrir, þar sem kemur fram að tillögur um flutning verkefna frá ríki til sveitarfélaga verði lagðar fyrir Alþingi sem fyrst. Ég tel fulla ástæðu til þess að vekja enn frekar athygli á þessari tillögu því það er satt að segja orðið ákaflega bagalegt fyrir sveitarfélögin allt í kringum landið að hafa vofandi yfir sér hugmyndir stjórnvalda um flutning verkefna til sveitarfélaganna án þess að það liggi nokkuð fyrir hvernig sveitarfélögunum verður búinn möguleiki til þess að sinna þeim verkefnum sem þarna eru á ferðinni. Kannski er sérstaklega ástæða til þess að minna á hugmyndirnar um að flytja starfsemi grunnskólanna alfarið yfir á sveitarfélögin. Ég held að hæstv. ríkisstjórn þurfi að fara að gera hreint fyrir sínum dyrum og gera það alveg ljóst með hvaða hætti minni sveitarfélögin eiga að geta tekið við þessu mikla verkefni.
    Þetta er eitthvað sem hefur auðvitað komið til umræðu hér margoft áður, en þessi tillaga er til þess að reyna að hafa áhrif á það að farið verði að gera þetta ljóst þannig að sveitarfélögin geti þá brugðist við með einhverjum hætti og undirbúið sig undir það að taka á móti þessum stóru verkefnum.
    Síðan er tillaga frá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni, Steingrími Hermannssyni, fyrrv. hv. þm., og hv. þm. Kristínu Einarsdóttur að bæta inn í þessa áætlun ákvæðum sem lúta að umhverfisvernd. Ég tel að það sé góð tillaga og full ástæða til þess að það komi skýrar fram í þáltill. heldur en gerir nú þegar að það þurfi að huga betur að náttúrunni og umgengninni við umhverfið. Það eru mál sem við þurfum að gefa miklu meiri gaum heldur en við höfum gert og ég hef þar ekki síst í huga umgengnina við fiskimiðin í kringum landið því þar tel ég að við höfum staðið okkur hvað verst í umgengninni við náttúruna.
    Það var til nokkuð lengi máltæki sem hljóðar þannig: Lengi tekur sjórinn við. Það var oft viðhaft þegar menn þurftu að losa sig við eitthvert drasl sem þeir ætluðu að henda, þegar menn hentu því í sjóinn, þá höfðu menn yfir þetta máltæki. Við höfum þannig mengað hafsbotninn allt í kringum landið árum saman. Við höfum notað veiðarfæri sem við höfum ekki rannsakað áhrifin af. Við höfum nýtt fiskstofnana með þeim hætti að við vitum ekki hvaða áhrif það hefur haft á lífríkið og það er engin breyting í raun og veru að verða á þessum athöfnum okkar. Við látum þessi nýju fullvinnsluskip okkar t.d. fleygja meiri úrgangi á fiskimiðunum heldur en hefur verið gert í gegnum tíðina. Við erum að auka þann úrgang sem við setjum í hafið og höfum verið að gera það á undanförnum árum. Það er þess vegna full ástæða til þess þegar verið er að ræða um þessi mál að við tölum um landið og það sem tilheyrir því, fiskimiðin og umhverfið, í einu lagi þegar við ræðum um umgengnina við náttúru landsins eins og reyndar er gert í þessari tillögu.
    Ég vil koma aftur að því að í tillögunni eins og hún var lögð fram var gert ráð fyrir 1.300 millj. kr. framlagi á fjárlögum til Byggðastofnunar og það var gagnrýnt af ýmsum að þar væri ekki mjög ríflega skammtað í þau verkefni sem þarna eru nauðsynleg til að viðgangur byggðarinnar verði með viðunandi hætti. Nú hefur þessi meðferð í nefndinni orðið til þess að upphæðin er komin niður í 940 millj. Ég tel að það þurfi að skoða þetta mál miklu betur.
    Ég verð að segja alveg eins og er að ég er í miklum vafa um hvort ég geti varið það að styðja þessa áætlun eins og hún liggur fyrir. Ég var óánægður með hana eins og hún var lögð fram og ég taldi að þar væri ekki nægilega myndarlega á málum tekið og þess vegna kem ég hér í ræðustól við síðari umr. málsins að mér finnst að það hafi ekki verið tekið á málum í nefndinni eins og ég hafði þó von um að yrði gert og með þeim hætti að við gætum reiknað með því að þessi áætlun hefði hvetjandi áhrif á ákveðin verkefni sem unnin eru á vegum opinberra aðila og stjórnvalda allt í kringum landið í byggðamálum. Þar er gífurlegt verk að vinna ef byggðaröskunin á ekki að halda áfram með þeim hraða sem hún hefur gert fram að þessu. Og hvað sem menn segja nú um þá hluti alla saman, þá held ég að þjóðin hafi í raun og veru mikla samstöðu um það að hún vill að allt Ísland sé í byggð og hún vill leggja það á sig að vinna að því að það markmið náist.
    Það er ekki endilega nauðsynlegt að til þess séu notaðir einhverjir gífurlegir fjármunir, en það er nauðsynlegt að menn hafi framtíðaryfirsýn yfir það með hvaða hætti eigi að vinna að þeim málum og að tryggt sé til þess það lágmarksfjármagn sem til þarf. Það þarf líka að velja vinnuaðferðir sem duga. Og mér þykir ákaflega sárt að sjá að í tillögum nefndarinnar skuli þetta koma fram, að þeir hverfa frá þeim hluta tillögunnar sem ég taldi þó að gæti gert einna mest gagn, þ.e. að leggja fram fjármuni, hlutafé, í þróunarfélögin sem eru að komast á laggirnar í flestum byggðum landsins og þurfa sárlega á fjármunum að halda til þess að geta sinnt sinni starfsemi.