Húsaleigubætur

152. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 00:37:14 (7373)


[00:37]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Það er orðin býsna löng saga umræðunnar um húsaleigubætur. Ég man ekki hvenær hún hófst en hún er orðin mjög löng. Ég man það a.m.k. að bæði ég og hæstv. núv. félmrh. áttum saman sæti í ríkisstjórn sem hafði það markmið að reyna að innleiða húsaleigubætur og þau fyrirheit voru endurnýjuð í nýjum stjórnarsáttmála þeirrar ríkisstjórnar í september 1989. Heilu stjórnmálaflokkarnir gerðu húsaleigubætur að sínu meginmáli varðandi aðild að þeirri stjórn, 9. sept. 1989. Það er ekki nokkur vafi á því að á bak við það mál hefur verið af hálfu allra þeirra sem að því hafa komið mikil einlægni. Sem sagt sú að það væri nauðsynlegur þáttur í velferðarkerfinu að vera með stuðningskerfi til að greiða húsaleigu vegna þess að markaðurinn væri allt of erfiður fyrir hinn almenna mann sem er að taka íbúðir á leigu. Staðan er t.d. þannig núna, segjum hér í Reykjavík, að sumt fólk er með 60--70 þús. kr. á mánuði en er að borga 30--40 þús. kr. í húsaleigu og það er auðvitað alveg augljóst mál að þetta fólk býr við neyðarkjör. Við þekkum það sem þekkjum aðeins til mála í þessu byggðarlagi að mikill fjöldi af þessu fólki leitar til Félagsmálastofnunar Reykjavíkur um stuðning vegna húsnæðiskostnaðar og lífsframfærslu almennt af því að launin eru svo lág og þau duga hvergi nærri fyrir eiginlega einu eða neinu og síst af öllu svona stórum hluta húsnæðiskostnaðar. Þess vegna hefur það verið barátta vinstri manna, félagshyggjuflokka og verkalýðshreyfinga um margra ára skeið að það yrðu til húsaleigubætur. Ég skildi baráttuna fyrir húsaleigubótum í raun og veru alltaf þannig að menn væru að krefjast almenns réttar. Þannig að þeir sem byggju við tilteknar aðstæður og væru með tilteknar tekjur gætu fengið húsaleigubætur algjörlega án tillits til þess hvar þeir t.d. búa á landinu og að menn þyrftu ekki að sækja um það í hvert skipti með svipuðum hætti og nú gerist með stuðning félagsmálastofnunar. Því þó það sé þannig að Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar sé að greiða fólki fjármuni sem borginni er skylt að greiða og fólkið þarf ekki að fyrirverða sig fyrir að taka við þeim fjármunum, alls ekki, þá er það engu að síður svo að sporin til félagsmálastofnunar, fyrstu sporin, þau eru þung fyrir alla einstaklinga. Þess vegna er það eðlilegur hlutur að menn velti því fyrir sér hvaða leiðir eru til í því skyni að auðvelda þessu fólki lífið og koma í veg fyrir eða fækka þeim tilfellum þar sem það þarf að stíga þessi þungu spor.
    Þess vegna verð ég að segja það að ég kann vel að meta það að hæstv. núv. félmrh. leggur áherslu á húsaleigubætur. Vandinn í málinu er hins vegar sá að það vinnur dálítið á móti sjálfu sér, málið eins og það lítur út því miður, það verður að játa það. Það er mjög leitt með mér liggur við að segja jafngott mál og brýnt og hér er um að ræða. Ég sé ekki betur en að hæstv. félmrh. hafi orðið að ganga í gegnum niðurlægjandi samningaferli um innihald þessa máls á undanförnum missirum og útkoman er sú sem blasir hér við. Og ég er satt að segja ekkert hissa á því þó mjög margir þingmenn úr stjórn og stjórnarandstöðu hafi athugasemdir við efni málsins eins og það lítur út því það eru því miður á því fjölmargir gallar, mjög veigamiklir gallar.
    Frv. hefur hins vegar einn kost sem er alveg yfirgnæfandi að mínu mati og hann er sá að það er lagt til að lögfesta húsaleigubætur. Það eru meiri og minni gallar á málinu út og suður en það er þó meiningin að lögfesta eitthvað sem heitir húsaleigubætur. Ég vona að aðferðin sé ekki svo vitlaus sem hér á að nota að hún verði til þess að menn muni rífa það kerfi niður svo að segja um leið og það hefur verið lögfest. Ég vona að hún sé ekki svo slæm. En mér finnst mikilvægt að það sé skrifað á lögbókina orðið húsaleigubætur, ég segi það alveg eins og er. Þá er ég t.d. að hugsa um það fólk sem býr við þau kjör sem ég er að lýsa sem er auðvitað ekki hvað síst í þessu byggðarlagi Reykjavík, eða það er mjög fjölmennt hér í Reykjavík. Ég er alveg sannfærður um að fyrir þetta fólk og fyrir Reykjavíkurborg sem slíka og þá félagsmálaþjónustu sem hér er innt af hendi þá skiptir niðurstaða af því tagi sem þarf að verða til, þ.e. gott kerfi húsaleigubóta, ég sagði gott kerfi húsaleigubóta, betra en hér er um að ræða, skiptir mjög miklu máli, mjög miklu máli. Og mér er kunnugt um að minnihlutaflokkarnir í borgarstjórn Reykjavíkur hafa lagt á það áherslu að þrátt fyrir alla galla málsins þá verði reynt að ná sem farsælastri lendingu í því.
    Í frv., eins og það lítur út, mun vera gert ráð fyrir því að það taki í raun og veru ekki gildi fyrr en 1. jan. á næsta ári, þ.e. um næstu áramót. Því hefði verið eðlilegasti hluti í heimi, finnst mér alla vega, að taka málið í haust og laga það pínulítið til í sumar og afgreiða það svo í snatri í haust. Annað eins hefur nú verið gert hér á haustdögum Alþingis Íslendinga og oft hefur verið fundið að því að menn hafi kannski verið fullfljótir á sér en í þetta verkefni gætu menn nú samt sem áður haft þó nokkuð langan tíma. Þess vegna finnst mér að það sé út af fyrir sig ekkert við það að athuga þó menn láti sér detta í hug að vinna málið betur í sumar og fá það inn aftur í haust eins og hv. 5. þm. Vestf. hefur hér greint frá.
    Ég verð hins vegar að segja það fyrir mitt leyti að miðað við þær aðstæður sem nú eru uppi og þar sem flest bendir til þess að þeirri hugmynd hans verði hafnað þá tel ég og vil láta það koma fram sem mína afstöðu að að þeirri tillögu felldri við þær aðstæður sem eru uppi mun ég greiða 1. gr. þessa frv., það er markmiðsgrein þess, atkvæði mitt. Ég geri það út frá hagsmunum Reykvíkinga, ég játa það, og áskil mér jafnframt rétt til að flytja brtt. og styðja brtt. við aðrar greinar frv. þegar það kæmi til 3. umr. Ég held að það sé mikilvægt að ná lendingu í málinu með einhverjum hætti. Mér sýnist að hæstv. félmrh. hafi sett sig í þær stellingar að það þurfi endilega að ná þessu máli fram og það verði mikið pólitískt stríðsmál af hennar hálfu eins og þetta liggur náist ekki lending í þessu núna. En ég vona að gallar þessa máls verði ekki til þess að brjóta göfug markmið þess niður, annaðhvort núna fljótlega eða einhvern tímann síðar.

    Ég vil síðan taka eindregið undir þau orð sem hv. 1. þm. Austurl. viðhafði hér um Búseta. Það er náttúrlega alveg ljóst mál í framhaldi af þeim ábendingum sem fram komu hjá honum þar sem vaxtabótakerfið nær ekki til búsetamanna, það dugir engum manni. Þá verður auðvitað á milli 2. og 3. umr. að smeygja inn brtt. í þetta mál, ef það verður að lögum, þannig að það verði afgreitt með mjög skýrum hætti. Það á ekki að láta þetta fólk byrja á því að leita á skattkerfið og svo verði það rekið til baka þaðan og komi þess vegna inn í þetta kerfi. Ég tel þess vegna að það sé mjög brýnt að það gert alveg skýrt að búsetafólkið geti átt heima í þessu kerfi ef það verður að veruleika þrátt fyrir alla þá galla sem á því eru.
    Þetta vildi ég segja, hæstv. forseti. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að menn geri sér grein fyrir því hvað hér er mikilvægt mál á ferðinni og hvað það er í raun og veru sorglegt að jafngott mál og það er að hafa húsaleigubótakerfi skuli vera eins illa undirbúið og raun ber vitni. Það er satt að segja afar leitt, ég viðurkenni það og hefði vissulega kosið að það lægi öðruvísi en málið liggur í mínum huga eins og ég hef hér rakið og í sjálfu sér þá tel ég að kostur málsins felist fyrst og fremst í því að það sé meiningin að skrifa á lögbókina orðið húsaleigubætur og svo verði menn að laga það í tímans rás að aðstæðum, ekki síst þess fólks sem bótanna á að njóta.