Viðurkenning á menntun og prófskírteinum

153. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 11:06:33 (7447)


[11:06]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hv. 3. þm. Norðurl. e. fyrir að flytja sneiðar á milli landshluta. Þessi forustugrein hafði farið fram hjá mér og ég hafði því miður ekki lesið hana þó ég lesi Austurland yfirleitt vandlega. Auðvitað er það svo að tillögur okkar alþýðubandalagsmanna varðandi þessi mál byggðust á því að um yrði að ræða meginþættina í fjórfrelsinu. Það hefur aldrei verið neitt launungarmál af okkar hálfu. Ég hef farið mjög rækilega yfir það í þessum ræðustól, m.a. að viðstöddum nokkrum þingmönnum sem hér eru inni. En aðalatriðið var það að við töldum að ýmsir aðrir þættir, einkum stjórnarfarslegir, væru varasamir í þessum samningi, í öðru lagi pólitískir þættir vegna þess að eins og samningurinn er og horfur voru á að hann yrði þá mundi þetta verða skref inn í Evrópubandalagið, Evrópusambandið, og í þriðja lagi vegna þess að við töldum að þessi samningur yrði sennilega heldur skammlífur eins og reyndar margt bendir til um þessar mundir. Við töldum hann því fráleitan við þær aðstæður og kusum þess vegna, eins og Steingrímur Hermannsson, nú seðlabankastjóri og þá formaður Framsfl., að greiða atkvæði gegn þessum samningi. Það var okkar niðurstaða af því að við vildum leggja sömu áherslur og fyrrv. ríkisstjórn gerði.
    Hluti Framsfl. kaus hins vegar að víkja frá áherslum Steingríms Hermannssonar, fyrrv. formanns hans. Það er vandinn sem mér heyrist að hv. þm. eigi erfitt með að gleyma.