Viðurkenning á menntun og prófskírteinum

153. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 11:34:57 (7454)


[11:34]
     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Mér er oft ætlað að vera á tveimur stöðum samtímis þegar menntmn. heldur sína fundi. Í báðum tilfellum stjórna sjálfstæðismenn þannig að það mætti vera meira samráð þeirra á milli um fundarboðun.
    Kjarni málsins er sá að framkvæmdarvaldið leggur fram þetta frv. Því er ekki breytt. Það er ekki um þau efnisatriði sem ég gat um áðan, að setja almennar reglur heldur algerlega niðurnjörvað við Evrópu.
    Varðandi hitt atriðið að ég hefði komið við á furðulegum stöðum vil ég örlítið fara yfir það. Ég talaði um Evrópu, Ameríku, Japan og Kína. Hver er hinn furðulegi staður af þessu? Er það e.t.v. Kína, þar sem hæstv. utanrrh. var á ferðalagi? Er Japan orðinn svona furðulegur staður? Er það Evrópa eða Ameríka? Auðvitað þarf það að liggja fyrir þegar hv. formaður utanrmn. upplýsir okkur um furðulega staði í veröldinni hvar þeir eru. Það efar enginn hans þekkingu til að dæma þar um og ég vildi gjarnan fá þetta alveg á tært. Hvar eru þessir furðulegu staðir sem ég kom við á í minni ræðu?
    En það er rétt og það var ánægjulegt að formaður hv. utanrmn. Björn Bjarnason mótmælti því ekki að hann hefur rétt til að tala um þetta mál í fleiri klukkustundir en nú er það tillitssemi við þingið og virðing fyrir honum sjálfum sem valda því að hann hefur ákveðið að gera það ekki.