Happdrætti Háskóla Íslands

153. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 14:52:27 (7475)


[14:52]
     Frsm. 2. minni hluta allshn. (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. frá 2. minni hluta allshn. um breyting á lögum um Happdrætti Háskóla Íslands, en það er 445. mál.
    Í upphafi vil ég taka fram að ég get út af fyrir sig fallist á þær brtt. sem fram hafa komið við þetta, bæði frá 2. minni hluta og frá allshn. og stend að þeim. Ég tel þau rök sem fram hafa komið frá 1. minni hluta vera þess eðlis að ég geti gert þau að mínum varðandi brtt. En varðandi málið sjálft þá hef ég í 2. minni hluta allshn. komist að þeirri niðurstöðu að það sé fyrst og fremst skortur á hinni siðferðilegu

umræðu sem veldur því að ég get ekki stutt þetta mál, þó ég vissulega sé ekki reiðubúin til að leggja stein í götu þess. Mér þykir þetta mjög bagalegt og ég minni á þá umræðu sem varð hér sl. haust. Hún var ekki að ástæðulausu, þetta var ekki fjaðrafok út í loftið og þetta var ekki einhver æsingur sem greip um sig. Það samkomulag sem síðan var gert var vissulega bæði þarft og nauðsynlegt, en ég sakna þess að sú siðferðilega umræða sem þarf að fara fram hefur ekki farið fram. Og fyrr en það verður þá get ég ekki tekið undir það að sett verði löggjöf um að heimila samtengda spilakassa.
    Ég vil hér fara yfir nál.:
    Nefndin hefur fjallað ítarlega um málið og ekki komist að sameiginlegri niðurstöðu. 2. minni hluti nefndarinnar telur að Alþingi sé sett í óþolandi aðstöðu með því að vera gert að taka afstöðu til þessa frumvarps án þess að boðið sé upp á aðra valkosti, svo sem að Háskóla Íslands verði tryggt fjármagn til nauðsynlegrar uppbyggingar með öðrum hætti en þetta frumvarp kveður á um.
    Annar minni hluti telur að mörgum siðferðilegum spurningum sé ósvarað varðandi starfsemi samtengdra happdrættisvéla á borð við þær sem Háskóli Íslands rekur. Á meðan sú umræða hafi ekki farið fram sé ótímabært að festa í lög grunn að starfsemi sem getur orkað tvímælis hvort leyfa eigi. Nær væri að leiða til lykta þá umræðu sem hafin er um siðferðilega stöðu Háskóla Íslands þegar honum er gert að afla fjár til uppbyggingar með sífellt umdeildari hætti á spilamarkaði landsmanna. Hætt er við að með lögfestingu starfsemi happdrættisvélanna muni sú þarfa umræða lognast út af og væri það miður.
    Nefndinni barst m.a. álit frá Kristjáni Kristjánssyni heimspekingi, formanni Rannsóknastofnunar Háskólans á Akureyri. Í því er reynt að leggja mat á þá umræðu sem verið hefur um siðferðilega stöðu Háskóla Íslands í rekstri spilavéla. Höfundur vill ekki leggja slíkar vélar að jöfnu við fjárhættuspil, eins og oft hefur verið gert, en samkvæmt skilgreiningu á happdrætti annars vegar og fjárhættuspili hins vegar sést þó að þær nálgast nokkuð mörkin. Niðurstaða höfundar er sú að starfræksla spilavélanna sé að vísu ekki siðferðisbrot en Háskóli Íslands sé kominn í mjög erfiða stöðu með því að þurfa að sækja svo mjög út á spilamarkaðinn. Í niðurstöðum álitsins segir Kristján:
    ,,Máltækið segir að sólin saurgist ekki af því að skína á mykjuhauginn. Það má til sanns vegar færa sé einungis átt við siðferðilega saurgun. Í fyrirsögn þessarar álitsgerðar er spurt hvort skjávélahappdrætti HHÍ sé ,,hvalreki eða refshali``. Niðurstaðan hefur orðið sú að HHÍ bindi a.m.k. ekki ráð sitt við neinn refshala siðleysisins með ákvörðun sinni um rekstur hinnar nýju tegundar happdrættis. Kannski verður sá rekstur háskólanum efnahagslegur hvalreki: ,,Gullnáma``. Orðspor getur hins vegar saurgast með öðrum hætti en siðferðilegum; og refshalar geta verið með ýmsu móti. Stjórnmálamenn ættu að minnast þess að háskólastarfsemi var og á að vera ,,hugsjón allra hugsandi manna á Íslandi`` svo að vitnað sé í orð Páls Skúlasonar. ,,Ef sú hugsjón deyr, þá deyr líka draumurinn um efnahagslegt, stjórnmálalegt og menningarlegt sjálfstæði Íslands`` segir Páll á sama stað. Hugsjónin hefur sem betur fer ekki dáið né hefur hún beðið siðferðilegan hnekki með starfsemi HHÍ, en hún er viðkvæm jurt sem ekki er gott að þurfa að varpa skugga almenningsálitsins á með óþokkasælum aðferðum. Það er rökstudd skoðun höfundar að íslensk stjórnvöld hafi að nauðsynjalitlu knúið Háskóla Íslands til slíkra aðgerða.`` Þar með lýkur tilvitnun í Kristján Kristjánsson.
    Annar minni hluti getur tekið undir þessi orð og bendir á að ekki megi víkjast undan því að breyta þessu. Hins vegar getur 2. minni hluti ekki varið það að Háskóli Íslands sé sviptur tekjum án þess að aðrar komi í staðinn og telur því brýnt að löggjafarvaldið skapi háskólanum aðra tekjustofna sem dugi. Fram kemur í áliti Kristjáns að yfirvöld virðist líta svo á að tilvist Happdrættis Háskóla Íslands firri þau að mestu ábyrgð á að sinna húsnæðismálum skólans. Svo að dæmi sé tekið hafi ríkissjóður á árabilinu 1978--1992 að meðaltali aðeins lagt fram 7,8% af heildarframkvæmdafé háskólans á móti 90% frá HHÍ.
    Annar minni hluti telur að eðlilegast hefði verið að taka tekjuöflun til uppbyggingar Háskóla Íslands til gagngerrar endurskoðunar svo að skólanum yrði gert kleift að sinna því mikilvæga hlutverki sem honum er falið án þess að gera út á spilafíkn landsmanna. Annar minni hluti mun því ekki taka þátt í afgreiðslu málsins. Annar minni hluti styður þó þá breytingartillögu að 16 ára aldurstakmark verði lögfest í spilavélarnar. Verði frumvarpið að lögum telur annar minni hluti að nauðsynlegt sé að búa svo um hnútana að komið verði í veg fyrir að börn og ungmenni innan 16 ára aldurs geti spilað í vélunum. Annar minni hluti telur meira hald í að kveða á um aldurstakmarkið í lögum en reglum sem hægt er að breyta með auðveldari hætti.
    Undir þetta nál. skrifar, sú sem hér stendur.
    Varðandi þetta seinasta, aldursmarkið, þá er það vissulega fyrir hendi nú þegar í reglum, en það hefur orðið nokkur misbrestur á og meðal annars mun vera dæmi, alla vega varðandi söfnunarkassana, sem er mál sem við komum að hér á eftir, að foreldrar hafa verið að kvarta undan því að börn þeirra, innan 16 ára aldurs, fái ekki greidda út vinninga og það er vissulega umhugsunarefni og við munum ekki breyta hér uppeldismálum á einu bretti með lagaákvæðum. En ég held að löggjafanum sé skylt að ganga eins langt og hægt er til að setja að sínu leyti þær hömlur sem hægt er að setja og lögfestingin er vissulega tryggari heldur en þessar reglur. Þannig að ég stóð heils hugar að þessum breytingum sem gerðar voru á frv., en eins og fram kemur í nál. þá vil ég ekki á annan hátt bera ábyrgð á þessu máli fyrst að ekki hefur farið fram sú umræða sem ég hef hér, bæði fyrr í vetur, í nefnd og núna, getið um, þ.e. hin siðferðilega umræða.

    Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, en í atkvæðagreiðslu mun að sjálfsögðu koma fram hvernig þetta mál liggur.