Söfnunarkassar

153. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 15:16:08 (7479)


[15:16]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil gera grein fyrir fyrirvara mínum við nál., en áður en ég vík að því vil ég taka undir það sem kom fram hjá hv. 14. þm. Reykv. sem benti á það réttilega að auðvitað er nafngift frv. umdeilanleg og ekki sjálfgefið að það sé réttnefni að kalla það frv. til laga um söfnunarkassa. Ég hygg að það megi vel fallast á að röksemdir þingmannsins um annað heiti eigi við allnokkur rök að styðjast.
    Fyrirvari minn við málið lýtur að því að ég tel rétt að bæta við frekari skorðum við rekstur kassanna en gert er í frv. og brtt. allshn. Þær skorður sem ég vil bæta við er í fyrsta lagi að óheimilt verði að starfrækja söfnunarkassa á vínveitingastöðum. Ég tel að þeir eigi ekki þar heima og vísa til röksemda minna áðan í öðru máli um Happrætti Háskóla Íslands og spilavélar þeirra.
Í öðru lagi vil ég að kveðið verði á um staðsetningu söfnunarkassa og önnur skilyrði fyrir leyfisveitingu í lögreglusamþykkt viðkomandi sveitarfélags.
    Að öðru leyti er ég sæmilega sáttur við frv. Það er ólíkt hinu sem við ræddum áðan, um spilavélar Happdrættis Háskóla Íslands, að því leyti að fjárupphæð vinninga er miklum mun lægri og vélarnar eru ekki samtengdar, en það skiptir miklu máli að mínu mati.
    Virðulegi forseti. Þá hef ég lokið við að gera grein fyrir þeim fyrirvara sem ég hafði við nál.