Húsaleigubætur

153. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 16:25:01 (7501)

[16:25]
     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Ingibjörg Pálmadóttir) :
    Virðulegi forseti. Hér er greinilega að nást víðtækt samkomulag um húsaleigubætur. Í gær kom það

fram í umræðu að það voru fleiri en stjórnarandstæðingar sem töldu að það þyrfti að gera bragarbót á frv. um húsaleigubætur og því var það að við lögðum það til að félmn. yrði kölluð saman áður en 2. umr. lyki. Það var gert og sá fundur var haldinn í morgun. Það náðist ekki samkomulag á þeim fundi og þess vegna lagði minni hlutinn fram svohljóðandi brtt. á þskj. 1228, með leyfi forseta, og undir þessar brtt. rituðu Ingibjörg Pálmadóttir, Jón Kristjánsson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Kristinn H. Gunnarsson:
    ,,Í stað ákvæðis til bráðabirgða komi tvö ný bráðabirgðaákvæði sem orðist svo:
    a. (I.)
    Við samþykkt laga þessara skal þegar hafin athugun á vegum félags- og fjármálaráðuneyta á breytingu á skattlagningu leigutekna, með hliðsjón af skattlagningu vaxtatekna sem hvetji til útleigu íbúða. Tillögur liggi fyrir 1. október 1994.
    b. (II.)
    Lög þessi skulu endurskoðuð innan tveggja ára og miði endurskoðun að því að húsaleigubætur verði almennur réttur. Réttur einstaklinga til vaxtabóta og húsaleigubóta verði sambærilegur.``
    Nú hefur hæstv. ríkisstjórn tekið undir sjónarmið stjórnarandstöðunnar og yfirlýsingar hæstv. félmrh. og hæstv. forsrh. eru mjög í takt við þá tillögu sem við höfum lagt fram og tel ég því rétt að draga hana til baka. Einnig er lagt fram frhnál. frá þessum sömu aðilum sem ég er frsm. fyrir en ég tel ekki rétt að lesa það hér því að það er mjög í anda þess sem hér á undan hefur komið fram hjá þessum tveim hæstv. ráðherrum.