Húsaleigubætur

153. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 16:33:16 (7505)


[16:33]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Eins og fram kom í umræðum um þetta mál í nótt, þá er ég þeirrar skoðunar að hér sé um að ræða mjög mikilvægt réttindamál fyrir alþýðu manna í þessu landi. Hins vegar taldi ég að frv. í þeim búningi eins og það lá þá fyrir væri mjög gallað og í raun og veru ynnu gallarnir á móti þeim markmiðum sem frv. setur sér eins og það leit út þá.
    Nú hefur það hins vegar gerst að það hafa komið fram tilteknar yfirlýsingar í málinu og ég tel að þær séu sérstakt fagnaðarefni, einkum og sér í lagi hér í þessu byggðarlagi sem við erum stödd í, í Reykjavík, þar sem húsaleigubætur snerta langsamlega flesta. Ég kem í þennan ræðustól núna fyrst og fremst til að lýsa því yfir fyrir mitt leyti að ég tel að það sé ánægjulegt að við náum þessari lendingu. Það er ljóst að það eru viss atriði enn þá sem þarf að laga í frv. en það er auðvitað hægt að halda áfram að skoða þá hnökra jafnvel þó að frv. verði að lögum svona. T.d. verður að tryggja hinn almenna rétt í framtíðinni þannig að allir sem eru á tilteknu tekjubili og leigja húsnæði eigi þennan rétt. En aðalatriðið er að það verði skráð á lögbókina að það sé til lagabálkur um húsaleigubætur og að það séu teknar um það ákvarðanir sem snerta, a.m.k. hér í þessu byggðarlagi eins og ég sagði áðan, sennilega þúsundir fjölskyldna sem búa við hin lökustu kjör um þessar mundir.