Leikskólar

154. fundur
Laugardaginn 07. maí 1994, kl. 10:27:14 (7585)


[10:27]
     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram brtt. við leikskólafrv. það sem hér er til umræðu. Tillagan hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ófaglært starfsfólk sem vinnur við hlið leikskólakennara skal eiga aðgang að hagnýtri uppeldisfræðslu.``
    Lagt er til að þessi málsliður bætist við 1. mgr. 12. gr. Það er álit mitt að frv. til leikskólalaga sem liggur hér fyrir sé á flestan hátt metnaðarfullt og gott frv., þó ég hafi fundið á því a.m.k. tvo annmarka. Þessa annmarka má rekja til þess að við lítum ekki alveg nógu skýrum augum eða skýrum skilningi á það hvernig ástandið er í íslensku samfélagi og brtt. mín byggir einmitt á þessu. Við vitum að víðs vegar um landið eru leikskólar og á þessum leikskólum er sem betur fer oftast forstöðumaðurinn eða forstöðukonan réttindamanneskja með leikskólakennarapróf. Við hlið hennar starfa yfirleitt fleiri og færri ófaglærðir starfsmenn.
    Á Reykjavíkursvæðinu, sem er nokkuð vel búið að leikskólakennurum, eru mörg hundruð ófaglærðir starfsmenn sem vinna við hlið og undir leiðsögn leikskólakennaranna. Stundum eru þeir meira að segja yfirmenn í deildum leikskólanna. Þetta vita allir sem þekkja til á leikskólum. Mér finnst ástæða til að við lítum ekki fram hjá því að ástandið er svona og þó svo að það sé markmið okkar að það starfsfólk sem á leikskólunum starfi sé allt leikskólakennarar þá er ástandið ekki þannig og verður alls ekki þannig á næstu árum, kannski ekki áratugum. Og börnin sem við erum að semja og samþykkja þetta leikskólafrv. fyrir eiga rétt á því að allt það starfsfólk sem annast þau fái aðgang að uppeldisfræðikennslu, hagnýtri uppeldisfræðikennslu, eins og stendur í þessari brtt. sem ég hef leyft mér að leggja hér fram. Þetta er grundvallaratriði fyrir starfsemi leikskólanna. Ég er alls ekki að kasta rýrð á hlutverk leikskólakennara á nokkurn hátt og veit að það eru þeir sem eru leiðandi á heimilunum og standa fyrir öllum þeim framförum sem þar hafa átt sér stað og munu eiga sér stað á næstunni, en það fólk sem til starfa er ráðið þar við hlið þeirra þarf að hafa góða menntun. Við getum ekki fram hjá þessu litið og það er eiginlega réttur barnanna að starfsfólkið sem á að annast þau eigi aðgang að þessu námi.
    Það er rétt sem hv. 9. þm. Reykv. sagði að það væru víðs vegar í gangi, samkvæmt kjarasamningum verkalýðsfélaganna, svona námskeið, þ.e. hagnýt uppeldisfræðinámskeið. En það er alls ekki alls staðar og mér finnst eðlilegt að það sé í lögum að uppeldisfræðinámskeið séu veitt öllu starfsfólki leikskólanna. Auðvitað vitum við það líka, bæði ég og ýmsir aðrir sem hér eru inni, að það er mjög öflugt fræðslustarf sem er rekið á vegum t.d. Dagvistar barna í Reykjavík fyrir leikskólana. Það er okkur kunnugt um. En þetta markvissa, hagnýta grunnuppeldisfræðinám sem ég er að tala um hérna þarf helst að vera í lögum til þess að allir geti átt rétt á því.
    Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta að sinni. Mér finnst augljóst að við getum ekki litið fram hjá þeirri staðreynd sem blasir við okkur hvar sem við lítum innan leikskólakerfisins.
    Ég vil líka harma það að tillaga hv. 2. þm. Vestf., Ólafs Þ. Þórðarsonar, sem átti líka að bætast við 12. mgr., um það að börn sem ekki tilheyra þjóðkirkjunni fengju fræðslu um sín trúarbrögð eða þau lífsviðhorf sem þau eru alin upp við --- mér finnst mjög slæmt að þingið skyldi ekki sjá sér fært að samþykkja þessa tillögu. Það er af því að við, íslenska þingið, höfum samþykkt ýmsa mannréttindasáttmála og ég held jafnvel að það sé brot á þessum mannréttindasáttmálum að við skulum leyfa okkur að hafna svona tillögu. Auk þess held ég að það gæti verið bara nokkuð góður bisness að kenna börnunum okkar um trú annarra þjóða. Ég held jafnvel að þeir bisnessmenn sem þetta þjóðfélag ætlar sér að ala upp væru betur í stakk búnir til þess að eiga skipti við fjarlægar þjóðir ef þeir skildu trúarlegan og siðferðilegan hugsunarhátt þeirra. Það ættu þó þeir að skilja sem mest hugsa um efnahagslegan ábata íslensku þjóðarinnar.
    Ég legg til að þessi tillaga mín verði vel ígrunduð af þingmönnum og ég vonast til að þeir beri gæfu til að samþykkja hana.