Rannsóknir á atvinnulífi og náttúruauðlindum í Öxarfjarðarhéraði

154. fundur
Laugardaginn 07. maí 1994, kl. 11:52:49 (7616)


[11:52]
     Frsm. iðnn. (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 512 flytja fjórir þingmenn Norðurlandskjördæmis eystra tillögu til þál. um rannsóknir á atvinnulífi og náttúruauðlindum í Öxarfjarðarhéraði. Flm. eru Tómas Ingi Olrich, Pálmi Jónsson, Jóhannes Geir Sigurgeirsson og Steingrímur J. Sigfússon.
    Í tillögunni segir:
    ,,Alþingi ályktar að rannsakaðir verði kostir sem vænlegir eru til nýmæla og þróunar atvinnumála í Öxarfjarðarhéraði með sérstöku tilliti til náttúruauðlinda héraðsins.``
    Síðan er tiltekið að hverju rannsóknin á að miðast og að lokum segir:
    ,,Byggðastofnun verði falið að hafa umsjón með rannsóknarverkefninu í samráði við Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga og sveitarstjórnir Öxarfjarðarhrepps og Kelduneshrepps.``
    Í nál. um tillöguna segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Nefndin hefur fjallað um tillöguna og fékk um hana umsagnir frá ferðamálaráði, Byggðastofnun, Kelduneshreppi og Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Nefndin fjallaði samhliða um tillögu um rannsóknir háhitasvæða í Öxarfjarðarhéraði, 320. mál þingsins. Nefndin telur eðlilegt að sérstök könnun á háhitasvæðum í Öxarfjarðarhéraði fari fram sem hluti af þeirri heildarkönnun á náttúruauðlindum og atvinnuþróun í Öxarfjarðarhérði sem hér er gerð tillaga um.``
    Undir nál. rita auk mín hv. þm. Finnur Ingólfsson, Sigríður A. Þórðardóttir, Tómas Ingi Olrich og Pálmi Jónsson. Nefndin leggur með öðrum orðum til að tillagan verði samþykkt.