Vog, mál og faggilding

154. fundur
Laugardaginn 07. maí 1994, kl. 11:56:42 (7618)

[11:56]
     Frsm. efh.- og viðskn. (Halldór Ásgrímsson) :
    Herra forseti. Efh.- og viðskn. hefur um nokkurt skeið haft til umfjöllunar umfangsmikið frv. til laga um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu. Það hefur komið ljós í umfjöllun um málið að það er flóknara en svo að nefndin telji fært að afgreiða það. Það varðar mjög margar eftirlitsstofnanir í þjóðfélaginu og jafnframt hefur nýlega verið lagt fram frv. um eftirlitsstarfsemi hins opinbera. Það er afar mikilvægt að samræma allt þetta eftirlitsstarf þannig að atvinnureksturinn geti fengið góða þjónustu og þurfi ekki að búa við það að margar eftirlitsstofnanir séu að fjalla um sömu málin með ærnum tilkostnaði. Það eru mörg dæmi þess að slíkt eftirlitsstarf sé beinlínis svo hamlandi í atvinnulífinu að það sé langt úr hófi fram þó að sjálfsögðu sé mikilvægt að hafa gott eftirlit með margvíslegri starfsemi.
    Hitt er svo annað mál að það er nauðsynlegt að afgreiða mál þetta að hluta til vegna samningsins um Evrópskt efnahagssvæði. Þar eru ýmis ákvæði um öryggi vöru og eftirlit sem þarf að uppfylla. Þar eru ákvæði um vörur sem geta reynst hættulegar heilsu og öryggi neytenda og það er kveðið á um fjölmargar af þeim vörum sem fjallað er um í EES-samningnum í ýmsum sérlögum hér á landi. Þar má nefna

að t.d. vélar, vinnuvélar, katlar, þrýstikútar eru hlutir sem falla undir ákvæði laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Eiturefni falla undir lög um eiturefni og hættuleg efni og barnabílstólar og hjólreiðahjálmar falla undir umferðarlög.
    Það eru hins vegar margs konar vörur á markaðnum sem ekki falla tvímælalaust undir sérlög eða eru á mörkum þess að gera það. Þetta frv. er flutt til þess að uppfylla okkar skyldur í þessu sambandi og jafnframt að koma á betra eftirliti með ýmsum vörum sem eru ekki aðeins til þess að uppfylla samninginn um Evrópskt efnahagssvæði heldur til að lagfæra margt í okkar aðstæðum.
    Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjalla frekar um mál þetta. Efh.- og viðskn. flytur þetta frv. og þar með mun frv. til laga um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu bíða afgreiðslu þar til á næsta þingi en væntanlega verður þá samhliða hægt að taka fyrir frv. til laga um eftirlitsstarfsemi hins opinbera sem nú hefur verið lagt fram til kynningar.
    Nefndin leggur til að frv. þetta verði samþykkt og er ekki ástæða til að fjölyrða frekar um það.