Verkfall meinatækna

155. fundur
Laugardaginn 07. maí 1994, kl. 13:41:59 (7639)


[13:41]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegur forseti. Það er alveg makalaust að hlusta á þennan málflutning sem hæstv. ráðherrar hafa fram að færa. Við erum að tala um verkfall sem hefur staðið í sex vikur, verkfall sem bitnar á sárveiku fólki og við erum að tala um stétt sem er búin að vera án launa í einar sex vikur. Ég veit ekki hvaða sambönd hæstv. fjmrh. hefur út í þjóðfélagið en við þingmenn höfum orðið fyrir því undanfarna daga ýmsir hverjir að fólk er að hringja í okkur. Ég nefndi tvö dæmi hér í morgun. Annað dæmið um hjartveika konu sem þarf að komast í aðgerð en hún er ekki nógu veik, þótt fárveik sé, hún er ekki nógu veik til að komast á akút-lista sem farið er eftir á spítölunum. Ég nefni líka dæmi um konu sem greinst hefur með ber í

brjósti og það vex dag frá degi en hún fær enga þjónustu. Þetta getur ekki gengið svona lengur. Þið verðið að gjöra svo vel og taka ykkur til, hæstv. ráðherrar, og setjast að samningaborðinu. Við erum að tala hér um mjög alvarlegt mál, mjög alvarlegt. Það mætti halda að það væri verið að tala hér um garðyrkjumenn og stöðumælaverði í vinnudeilum en ekki mál sem snýr að veiku fólki. Menn verða bara að gjöra svo vel og horfast í augu við það að það er ekki sama hvaða hópar standa í vinnudeilum, það er ekki sama. Mál eru misjafnlega alvarleg. Ég ítreka að það á ekki að setja lög á meinatækna, ráðherrar eiga að ganga í það mál að finna lausn á þessum mikla vanda. Menn verða bara einfaldlega að setjast að samningaborðinu og finna lausn á vandanum. Það er eina leiðin út úr þessu máli.