Verkfall meinatækna

155. fundur
Laugardaginn 07. maí 1994, kl. 13:52:24 (7644)


[13:52]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka fram í fyrsta lagi að ég er að mörgu leyti sammála því sem kom fram hjá hv. 10. þm. Reykv., Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, að vandinn felst í svokölluðu samfloti. Það vill svo til að einmitt í þessari deilu sem við erum að ræða núna þá er þetta vandamál uppi því það er misræmi í kjörum þeirra sem starfa í Reykjavík og hinna sem starfa úti á landi og krafan er sú að báðir hóparnir hækki. Þannig að ég er fyllilega sammála því sem kom glögglega fram hjá hv. þm. og er reyndar hluti vandans.
    Þá vil ég að það komi hér skýrt fram að það á ekki að vera hægt og ég trúi því ekki sem kom hér fram að það sé ekki talið vera akút-mál þegar um er að ræða illkynja krabbamein. Ég veit að meinatæknar hafa, og þeir mega eiga það í þessari deilu, sýnt það svigrúm sem þarf til þess að það þarf ekki að vera um lífshættu að ræða. Það ber að þakka og ég vil að það komi fram í minni ræðu.
    Það er þannig að ríkið hefur lagt fram tilboð og í því tilboði hefur komið fram talsverð launahækkun miðað við þær launahækkanir sem hefur verið talað um og samið um að undanförnu. Það vil ég að komi fram. Heilbrrh. er ekki við, hann getur ekki borið hönd fyrir höfuð sér í þessari umræðu. Ég vil aðeins segja það að hann hefur fylgst með þessari deilu, kynnt sér hana rækilega en samningsumboðið er auðvitað hjá fjmrh. sem hér er.
    Varðandi bráðabirgðalagavaldið er eðlilegt að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson spyrji um bráðabirgðalögin því að þau voru fræg bráðabirgðalögin hans.
    Ég vil segja það hér og nú að það hefur ekkert verið rætt um það að taka á þessum málum með bráðabirgðalögum enda situr þingið og það er ekki hægt. Þegar þingið fer þá fær ríkisstjórn bráðabirgðalagavaldið. Það verður ekki tekið af ríkisstjórn og hún getur ekki samið það af sér vegna þess að það er stjórnarskrárbundið. En ég vil láta það koma hér skýrt fram að það eru engar ráðagerðir nú og hefur ekkert verið rætt um það að ríkisstjórnin leysi þetta vandamál með bráðabirgðalögum.