Áburðarverksmiðja ríkisins

155. fundur
Laugardaginn 07. maí 1994, kl. 17:13:38 (7673)


[17:13]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það gætir misskilnings hjá hv. þm. Það er nokkuð ljóst að ef ekki tekst að ná samkomulagi og samvinnu við erlenda aðila um rekstur verksmiðjunnar og áburðarviðskipti eru litlar vonir til þess að verksmiðjan geti staðið undir sér í framtíðinni eftir að áburðarverslun hefur verið gefin frjáls hér á landi. Það er vitaskuld óhjákvæmilegt ef menn ætla að gefa Áburðarverksmiðjunni líf í einhver ár að til slíkrar samvinnu geti dregið. Ég held að allir séu sammála því sem hafa kynnt sér þessi mál og sett sig inn í rekstur verksmiðjunnar og sett sig inn í sölumál áburðar og verð á áburði í nálægum löndum og þær hugmyndir sem þar eru uppi. Ég held þess vegna að það sé alveg ljóst að það verður að koma til slíkrar samvinnu ef Áburðarverksmiðjan á að geta staðist í einhverju formi.
    Ég vil líka segja að rökin fyrir því að ég tel hlutafélagaformið heppilegra er að ég get sýnt fram á það m.a. með Skipaútgerð ríkisins hversu áætlanir stóðust illa raunar allan tímann. Það var komið svo undir lokin að Skipaútgerðin tapaði 1 millj. á dag og hafði gert svo um langa hríð og auðvitað gátum við ekki undir því staðið sem þjóð að halda uppi víðtækum slíkum rekstri. Ef við á hinn bóginn erum þeirrar skoðunar að ríkisrekstur á verksmiðjum sé arðvænlegri og sé betri hvers vegna í ósköpunum flytur þá ekki hv. þm. tillögu um það að ríkið gangi víðar inn í atvinnureksturinn, beiti sér fyrir rekstri verksmiðju og öðru þvílíku ef þingmaðurinn telur að það sé heppilegri leið.